Fréttir
10.10.2008 - Útdráttur úr skólasögu Djúpavogs
 

- Í tilefni af 120 ára afmæli skólahalds á Djúpavogi -

Útdráttur úr Skólasögu Djúpavogs

Lokaritgerð Erlu Ingimundardóttur í Kennaraháskóla Íslands 1992


Upphaf skólahalds
Um fræðslu barna á Djúpavogi er það vitað að ýmsir heimilisfeður héldu heimiliskennara á síðari hluta 19. aldar og allt fram til 1930, þó ekki stöðugt. Voru það fyrst og fremst kaupmenn og aðrir efnamenn í byggðarlaginu.

Skólahúsnæði
Það er talið að almenn barnakennsla hefjist á Djúpavogi haustið 1888.  Ekkert húsnæði var fyrir hendi. Fyrstu árin var kennt í húsi sem kallað var Hótel Lundur.  Þar stendur nú húsið Geysir.  Eftir það var kennt í húsi sem var kallað Suðurkaupstaður.  Þar var kennt þar til Gamli skólinn var tekinn í notkun 1914
Nýi skólinn er svo byggður 40 árum seinna. 

Gamli skólinn  
Gamli skólinn stóð á melnum milli Hlíðarendakletts og gömlu Ekru.  Þetta var tveggja hæða steinhús, ein kennslustofa á hvorri hæð.  Kolaofn var í hvorri stofu og vatn haft í vaskafati til að þvo hendur, ef kennarinn varð óhreinn við að moka í eldinn. Ekkert vatn eða frárennsli var í húsinu.  Kamar var í litlum skúr áföstum við skólann.  Í þessu húsi var kennt til ársins 1953 – 54.  Þar sem gamli skólinn stóð er nú Landsbanki Íslands ( Sparisjóðurinn).

Nýi Skólinn
Um áramótin 1953 – 54 var flutt í Nýja skólann sem var 287 fermetrar.  Þar voru tvær almennar kennslustofur sem hægt var að opna á milli, smíðastofa og stór gangur sem ætlaður var til leikfimikennslu.  Einnig var baðaðstaða í tengslum við leikfimina, snyrtingar og kennarastofa.  Fljótlega var farið að tala um þrengsli í nýja húsnæðinu.  Um 1975 er byrjað á viðbyggingu 331 fermetra stórri sem tekin var í notkun haustið 1977.  Viðbyggingum var haldið áfram og 1982 var síðasta viðbygging tekin í notkun.  Heimavist var byggð stutt  frá skólanum, var hún tekin í notkun 1987.

Ýmiskonar starfsemi í skólahúsnæðinu
Á árunum 1954 – 1985 má segja að húsnæðið hafi verið gjörnýtt til ýmis konar félagsstarfsemi. Má þar nefna árshátíð skólabarna, jólatréssamkomur, þorrablót.  Öll félög fengu að fara þar inn með sína fundi ef á þurfti að halda. Stærsta verkefnið mun vera sýningin sem sett var upp á 400 ára verslunarafmæli Djúpavogs.

Skólastjórar
Skólastjóra hafa verið margir gegnum árin.  Þeir sem hafa starfað lengst eru Jón Stefánsson ættaður úr Austur – Skaftafellssýslu  frá 1916 – 1939  og 1940 – 41  eða 24 ár.
Ingimar Sveinsson var skólastjóri frá 1955 – 1985 eða í 30 ár, eftir það starfaði hann sem almennur kennari .1992 hafði hann starfað við skólann í 37ár að einu ári undanskildu 1969 – 70, þegar hann var í ársleyfi og stundaði nám í Danmarks Lærerhojskole.

Námstími, nemendur, kennslutæki
Í lögum frá 1936 var ákveðið, að í heimangönguskólum skyldi lágmark námstíma vera
24 – 33 vikur eftir stærð skóla o. fl.  Eftir 1940 er hér sjö og hálfsmánaðar skóli alt til ársins 1962 að hann er lengdur í 8 mánuði og 1988 – 89 er hann svo átta og hálfsmánaðar skóli.

Í skólanum eru varðveittar prófbækur .  1917 eru skráðir þar 19 nemendur ,  1945, 48 nem.
1986 – 87 eru 100 nem.  Skólaárið 1991 – 92 eru 85 nem. í skólanum.

Unglingafræðsla var hér fyrst á árunum 1924 – 27  síðan  engin þar til 1936 – 46 svo aftur  1948 – 50  Árið 1962 er þriðji kennarinn ráðinn við skólann og þá er tekin upp unglingafræðsla sem hélst óslitið þar til 9. bekkur tekur við haustið 1980

Það var mikill þrýstingur frá foreldrum um að kennsla í 9. bekk yrði tekin upp hér svo að fólk þyrfti ekki að senda börnin svona ung að heiman, en flest fóru þau að Eiðum.  Ef samvinna tækist milli nágranna hreppanna fengist sá fjöldi nem.  sem þurfti til að leyfi fengist frá skólayfirvöldum.  En þá var eftir sá þáttur sem mestri óvissu veldur, en það var aðstaðan fyrir nemendurna ú sveitunum.   Fyrsta veturinn var þeim komið fyrir hjá vinum og vandamönnum,
Næstu árin voru leigð íbúðarhús.  Byrjað var að byggja heimavistarhúsnæði 1983 og það tekið í notkun 1986

Þegar Ingimar kom hingað 1955 var skólinn mjög vanbúinn að kennslutækjum, nánast ekki neitt til nema landakort og danskar veggmyndir sem tengdust dýra – og átthagafræði
1958 er keyptur blekfjölritari, handsnúinn.  Engin ritvél var til og notuðu kennarar eigin ritvélar.  Bókakostur var af skornum skammti.  Hefðbundnar námsbækur , ítarefni nánast ekki neitt.  Þegar ég hóf störf við skólann 1978 var lítið til af tækjum en er nú hann mjög vel búinn tækjum eftir kröfu tímans

Verklegar greinar, leikfimi, tónlist
Engin handavinna var kennd fyrr en eftir 1940 og þá ekki á hverju ári . Það voru fengnar konur til að segja stúlkunum til í útsaumi og drengjunum var eitthvað sagt til með smíðaföndur af mönnum sem kunnu eitthvað fyrir sér í þeim efnum.
1968 tók Álfheiður Ákadóttir að sér handavinnnu stúlkna og kenndi til ársins 1977 á þessu tímabili er keypt fyrsta saumavélin í skólann.  Á þessum árum fengu drengir litla tilsögn í handavinnu. Upp úr 1970 er kennd í nokkur á það sem kallað var sjóvinna þ.e. að búa til net og hnýta alls konar hnúta.
Haustið 1978 Byrjaði Erla Ingimundardóttir að kenna handavinnu og hefur síðan þá, kennt alla handavinnu sem kennd hefur verið við skólann.

Heimilisfræði var fyrst byrjað að kenna haustið 1987  Aðstaða til  var engin þegar byrjað var með hana.  Handavinnustofan var notuð, þar hafði verið komið fyrir vaski og bekk.  Næsta haust var aðstaðan löguð lítislháttar, keyptar tvær suðuplötur og lítill bakarofn.  Haustið  1990 var heimilisfræðikennslan flutt í íbúðarhúsnæði sem er í heimavistarbyggingunni þar var ágæt aðstaða.  Kvenfélagið Vaka á Djúpavogi hefur gefið allt leirtau, hnífapör og fleiri áhöld til heimilisfræðinnar og einnig þvottavél.  Erla Ingimundardóttir hefur kennt heimilisfr. frá byrjun.

Allt til 1940 mun ekki hafa verið leikfimi kennd en það ár komu ung hjón hingað að skólanum Guðmundur Pálsson og Ásdís Steinþórsdóttir {þau voru til 1946} og þau kenndu leikfimi. Kennt var í Neista  {gamla ungmennafélagshúsinu}. 
Neisti var notaður lengst af þar til flutt var í nýja skólann 1953

Sundkennsla var ekki hér.  Börnin voru send í Eiða á vorin á námskeið sem stóðu í 10 daga.  Þetta fyrirkomulag hélst frá 1942 – 1981 að Lionsmenn gáfu skólanum sundlaug úr plastdúk, nýttist hún vel sem kennslulaug. Sundkennari var fenginn á hverju vori til að kenna.

Tónlistarkennsla var engin hér á Djúpavogi til ársins 1983  Fram að þeim tíma höfðu einstaka kennarar verið duglegir við að  láta börnin syngja.  1983 er Tónskóli Djúpavogs stofnaður.  Fyrsti skólastjórinn var Eyjólfur Ólafsson  var hann einnig með tónlistarfræðalu í Grunnskólanum.

Félagslíf 
Það er ekki fyrr en á dögum Ásdísar og Guðmundar að félagslíf fer að verða hluti af skólastarfinu.  Þá eru á hverjum vetri skólaskemmtanir þar sem börnin æfðu og léku leikrit, lásu sögur og ljóð.  Þessar skemmtanir hafa verið árvissar allt fram á  þennan dag.
Skólaferðalög byrjuðu í tíð Ingimars.  Fyrsta ferðin var farin 1956
Hlutaveltur voru árvissar í mörg ár.  Skólaböll voru einnig og var eldri nemendum úr nágrannaskólunum boðið.  Upp úr 1980 var farið að halda bekkjarkvöld.  Buðu nem. foreldrum .  Höfðu nem.smá skemmtiatriði sem gestirnir tóku þátt í.  Nem. sáu einnig um veitingar.   Foreldrafélag Grunnskóla Djúpavogs var stofnað  16. jan. 1988

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.12:00:00
Hiti:1,5 °C
Vindátt:N
Vindhraði:10 m/sek
Vindhviður:21 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.12:00:00
Hiti:1,1 °C
Vindátt:N
Vindhraði:7 m/sek
Vindhviður:10 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.12:00:00
Hiti:1,7 °C
Vindátt:V
Vindhraði:9 m/sek
Vindhviður:14 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 29.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is