Fréttir
17.11.2008 - Dagur íslenskrar tungu-grunnskóli
 

Í gær, 16. nóvember, var Dagur íslenskrar tungu.  Hann er haldinn ár hvert á afmæli Jónasar Hallgrímssonar og hefur skapast hefð fyrir því að þessi dagur marki upphaf Stóru upplestrarkeppninnar sem 7. bekkingar taka þátt í.  Við höfum verið með í þeirri keppni í rúm 10 ár og verður engin breyting þar á, að þessu sinni.  Nemendur byrja að æfa sig markvisst, í þessari viku, undir styrkri leiðsögn Berglindar Einarsdóttur, keppa síðan innbyrðis hér heima í febrúar þar sem tveir keppendur verða valdir til að keppa, f.h. skólans, á lokahátíð sem haldin verður á Höfn í Hornafirði í mars.

Í tilefni af Degi íslenskrar tungu höfum við ákveðið að birta hér á hverjum mánudegi:  Ljóð vikunnar, málshátt vikunnar og orðtak vikunnar.  Íslenskukennarar munu fjalla um þessi atriði í kennslustundum og gott er, ef foreldrar gera slíkt hið sama heima.  Þannig auðgum við tilveru og tungutak hvers annars með fallegum orðum sem geta lífgað upp á skammdegið ef við leyfum þeim það.

Mig langar til að benda ykkur á tvær síður, sem tengjast Jónasi Hallgrímssyni.  Þær eru:

Íslenska er okkar mál

Jónas Hallgrímsson

Ljóð vikunnar að þessu sinni, fann ég inni á síðunni, Íslenskan er okkar mál.  Þegar ég var að lesa þar og leita að ljóði rakst ég allt í einu á orðið Djúpivogur.  Ég varð heldur hróðug og staldraði við.  Upp kom ljóð eftir Ísak Harðarson, sem hljóðar svo:

Náttúrufræði I
(Höfuðhneigja í djúpið)
Æðurin sem kafar fyrir augum mér
hér við Stokkseyrarströnd
skýtur snögglega upp kollinum 
á Djúpavogi eftir örfá augnablik
 
 
og æðurin sem birtist síðan
hér í fjöruborðinu er
allt annar fugl 
kominn norðan frá Narssarssuaq
á fáeinum andartökum 

Sama lögmál gildir
um hugsanir manna: 
að allar þær hálfkveðnu vísur
sem hverfa úr höfðunum gegnum tíðina
hafa á augnabliki kafað öðrum í hug
á Djúpavogi, í Narssarssuaq eða Tíbet

 
og þessir annarlegu fuglar
sem koma óvænt úr kafi
huga míns í Reykjavík og á Stokkseyri
hafa sjálfsagt ungast út í Tíbet, 
Narssarssuaq eða á Djúpavogi ... 

Það er einmitt þess vegna
að hugsanirnar kafa alltaf
burt fyrr en varir
 
nema 
þegar ég gríp þær ljóðvolgar
og kem þeim fyrir uppletruðum
í litla náttúruljóða-
safninu mínu
Höfundur:  Ísak Harðarson

Málsháttur vikunnar
Að kvöldi skal ósáttum eyða.
Merking:  Ef menn eru ósáttir er mikilægt að útkljá deiluna áður en farið er að sofa, því annars hvílir reiðin á manni ennþá þegar maður vaknar.

Orðtak vikunnar
Að setja/leggja öll egg sín í eina/sömu körfu.
Merking:  Maður á ekki að geyma allar eigur sínar á sama stað, því ef eitthvað kemur fyrir þá hverfur / skemmist allt í einu.  Ef maður dreifir eigunum á nokkra staði þá minnkar áhættan.

HDH

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.14:00:00
Hiti:1,7 °C
Vindátt:N
Vindhraði:15 m/sek
Vindhviður:22 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.14:00:00
Hiti:1,0 °C
Vindátt:N
Vindhraði:7 m/sek
Vindhviður:15 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.14:00:00
Hiti:2,4 °C
Vindátt:SA
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:11 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is