Fréttir
11.03.2009 - Birds.is hlaut Frumkvöðlaverðlaun Markaðsstofu Austurlands
 

Á 10 ára afmælishátíð Markaðsstofu Austurlands, sem haldin var á Hótel Héraði laugardaginn 7. mars sl., voru veitt hin eftirsóttu Frumkvöðlaverðlaun. Frumkvöðullinn er veittur þeim sem sýnt hafa áræðni og hugmyndaauðgi við uppbyggingu á þjónustu fyrir ferðamenn og stuðlað með verkum sínum að aukinni fjölbreytni í atvinnugreininni á Austurlandi. Meðal þeirra sem fengið hafa þessa viðurkenningu eru Lagarfljótsormurinn, Fransmenn á Íslandi, Ferðamálahópurinn á Borgarfirði, Skriðuklaustur og Klaustursel, sem fékk viðurkenninguna í fyrra.

Í þetta sinn var Frumkvöðullinn veittur fuglaskoðunarverkefninu birds.is á Djúpavogi. Albert Jensson veitti viðurkenningunni viðtöku á afmælishátíðinni á laugardaginn.

Upphaf verkefnisins má rekja allt til ársins 2002 þegar Ferðamálanefnd Djúpavogshrepps vann að því að greina helstu sérkenni fyrir Djúpavogshrepp, með tilliti til eflingar á ferðaþjónustu. Það var mat nefndarinnar að fjölskrúðugt fuglalíf í Djúpavogshreppi væri eitt af sérkennum svæðisins. Árið 2005 fór vinna við verkefnið á fullan skrið með stuðningi frá Útflutningsráði Íslands og var þá skipaður sérstakur starfshópur um verkefnið, með vinnuheitinu Birds.is.

Svæðið í kringum Djúpavog þykir henta sérstaklega vel til fuglaskoðunar en hér eru mörg mikilvæg búsvæði og viðkomustaðir margra fuglategunda. Umhverfi vatnana á Búlandsnesi er mjög aðgengilegt og þar er fuglalíf fjölskrúðugt. Farfuglarnir koma í stórum hópum, fyrst upp að Suð-Austurlandi og fara síðast frá Íslandi af þessu sama svæði. Ennfremur má hér sjá umtalsvert af flækingsfuglum.

Helstu markmið verkefnisins er að auka á fjölbreytni í ferðaþjónustu á svæðinu og vinna að því að lengja ferðamannatímann, jafnframt því að auka áhuga almennings á fugla- og náttúruskoðun.

Umtalsvert starf hefur verið unnið í markaðssetningu, þá helst með uppsetningu á heimasíðu verkefnisins www.birds.is. Samhliða því hefur verið byggt stórt fuglaskoðunarhús við vötnin á Búlandsnesi, svo og sett upp hús fyrir smáfugla í Hálsaskógi, gefinn út bæklingur og fuglagreiningarlisti ásamt öðrum sérmerktum vörum með merki Birds.is. Enn fremur hafa verið sett upplýsingaskilti á völdum stöðum um þá fugla sem er að finna í nágrenni Djúpavogs, svo og kort af svæðinu.

Síðastliðið vor var Landsmót áhugamanna um fuglaskoðun haldið á Djúpavogi og var þá greind 61 fuglategund á einum degi á svæðinu við Djúpavog.

Þá má geta þess að hverfisvernd hefur verið mörkuð um mikilvæg búsvæði fugla á nokkuð stórum svæðum í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008-2020 sem nú er í lokavinnslu þannig að verkefnið birds.is hefur einnig stuðlað að umtalsverðri náttúruvernd á svæðinu.

Við hér á fréttasíðunni óskum aðstandendum birds.is innilega til hamingju með viðurkenninguna, en verkefnið er sérstaklega vel að henni komið. Það þarf að sjálfsögðu ekki að fjölyrða um hverslags lyftistöng verkefni sem þetta er fyrir ferðaþjónustu í Djúpavogshreppi en það hefur skapað staðnum mikilvægt forskot í fuglatengdri ferðaþjónustu.
 
Meðfylgjandi mynd var tekin í gær á fundi Ferða- og menningarmálanefndar Djúpavogshrepps þar sem fjallað var um viðurkenninguna.
 
Við bendum á heimasíðu birds.is, www.birds.is, en hana má nálgast í höfuðflipunum hér efst á síðunni.
 
 
Stoltir frumkvöðlar - Albert Jensson, Kristján Ingimarsson og Þórir Stefánsson
 
 

 

ÓB

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.05:00:00
Hiti:-1,2 °C
Vindátt:NA
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:6 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.05:00:00
Hiti:-1,2 °C
Vindátt:NNV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:7 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.05:00:00
Hiti:-1,3 °C
Vindátt:NA
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is