Fréttir
10.05.2009 - Til áréttingar / Opnun Safnstöðvar Djúpavogshrepps á næstu grösum
 

Kæru íbúar Djúpavogshrepps

Sem kunnugt er hefur Djúpavogshreppur um nokkurt skeið unnið með fyrirtækinu Sagaplast ehf. á Akureyri að undirbúningi þess að koma upp aðstöðu á Djúpavogi til flokkunar á efnum sem falla til frá heimilum og fyrirtækjum í sveitarfélaginu og nú styttist óðum í að þetta mikla framfaramál komist á laggirnar. Þann 1. júní næstk. mun Djúpavogshreppur opna móttökustöð í Gleðivík innri, en móttökustöð þessi mun framvegis bera nafnið
Safnstöð Djúpavogs.
  Í Safnstöð Djúpavogs munu íbúar geta á öllum tíma dags farið með flokkuð skilgreind efni.

Flokkað verður í 5 lúgur með eftirfarandi efnum:

Bylgjupappi - Sléttur pappi - Dagblöð - Plast - Málmur.

Varðandi ofangreind flokkunarefni skal hér bent á tengla hjá Sorpu til upplýsingar sem koma að góðu gagni, en þar  er hægt að lesa sig til um hvernig skal athafna sig við flokkunina.  Smellið hér á tenglana http://sorpa.is/Endurvinnsla/Flokkun-urgangs/ og http://sorpa.dev20.dacoda.is/resources/Files/Myndbond/Fernur_512K_ADSL_00141.wmv

Undirritaður telur mjög mikilvægt að kynna mál þetta vel fyrir íbúum svo sett markmið náist með flokkuninni þ.e. að dregið verði allt að 80% úr urðun á úrgangi frá sveitarfélaginu og það er sannarlega til mikils að vinna.
Forsenda þess að góður árangur náist er að íbúar taki breytingunum með jákvæðum huga og að allir taki virkan þátt frá fyrsta degi og flokki samviskusamlega.
Reynslan hefur sýnt að flokkun verður fljótt jafn sjálfsagður hluti af heimilisverkunum og önnur verk.

Hér á heimasíðunni verður reglulega sett inn efni til áréttingar og frekari upplýsingar allan maímánuð og mun málið því verða kynnt eins vel og framast er kostur.
Þá verður sent út upplýsandi kynningarefni þegar líður á maí mánuð á hvert heimili í sveitarfélaginu vegna flokkunarinnar.  Þar sem tæplega mánuður er nú í formlega opnun á Safnstöðinni er ekkert að vanbúnaði fyrir íbúa sveitarfélagins og fyrirtæki að byrja að flokka strax þau skilgreindu efni sem hér er getið að ofan. Það velur hver sitt ílát til að flokka í heimafyrir og gildir þá einu hvort menn nota gamla góða svarta ruslapokann eða önnur varanlegri ílát undir þessa fimm flokka sem getið er hér að ofan.
Minnt skal á að heimilistunnan verður áfram notuð en þar eiga aðeins að fara hin óflokkanlegu efni frá og með 1.júní næstk. Hin óflokkanlegu efni verða skilgreind nánar í kynningarefni þegar nær dregur opnun Safnstöðvarinnar.

Þá er rétt að benda hér íbúum á frábæra lausn sem er  jafnframt mjög einföld varðandi heimamoltugerð, sjá hér nánar. http://www.landvernd.is/myndir/safnhaugur_letingjans.pdf 
Með lausn sem þessari má segja að íbúar stuðli að hinni fullkomnu endurnýtingu, þar sem matarafgangar verða á tveimur árum að fullkominni gróðurmold.

Fyrstu viðbrögð íbúa vegna fyrirhugaðar flokkunar hafa verið mjög jákvæð og er undirritaður þess fullviss að íbúar Djúpavogshrepps vilji sýna fram á góðan árangur í þessum málum og standa allir sem einn að baki slagorðinu:
"Djúpivogur vistvænn og vinalegur" 
Tökum því höndum saman og sláum öllum öðrum sveitarfélögum við í þessum efnum.

 

Formaður umhverfisnefndar Djúpavogshrepps
Andrés Skúlason

P.S. Sjá hér að neðan myndir þegar tekið var forskot á sæluna í dag og einn tilraunabaggi var pressaður.

 

 

 

 

Myndir teknar í dag þegar pressan var prófuð með góðum árangri í fyrsta sinn, sjá pappahauginn áður en 
pressan fór í gang.  


Það fer lítið fyrir pappahaugnum þegar búið er að pressa hann. Gunnar Garðarsson frá Sagaplast efh sýnir
hvernig græjan virkar.


Magnús K og Gunnar G með fyrsta pressaða baggann.  Svo menn átti sig á hve umfangið er minnkað mikið með
pressunni þá er hæfilegt að taka bylgjupappa úr 4 - 5 fullum stórum mjölpokum og pressa í einn bagga eins og sjá má hér á mynd.  Flutningskostnaður verður því eðli málsins samkvæmt aðeins brot af því sem 
var þegar allt var sett í urðun.   



Hér má sjá staðsetningu Safnstöðvar Djúpavogs sem tekur formlega til starfa frá og með 1.júní næstk.
Á þak hússins með rauða punktinum verða settar 5 lúgur til að flokka inn um.


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.19:00:00
Hiti:1,9 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:16 m/sek
Vindhviður:22 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.19:00:00
Hiti:1,4 °C
Vindátt:N
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.19:00:00
Hiti:1,4 °C
Vindátt:SV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is