Fréttir
17.08.2010 - Hjólað í Egilsstaði til stuðnings Axarvegi
 

Korter yfir níu laugardagsmorguninn 14. ágúst lögðum við þrjú af stað, undirritaður, Bryndís Reynisdóttir og Þorbjörg Sandholt hjólandi til Egilsstaða um Öxi, samtals 85 km leið. Gréta var bílstjóri með vistirnar og stóð sig vel í því hlutverki ásamt því að taka myndir. Blíðskaparveður var á Djúpavogi þegar við lögðum af stað frá ráðhúsinu og sóttist ferðin vel inn Berufjörðinn með smá andvara í bakið. Viðgerðarhlé var svo á Melhorni þar sem Ólafur Áki gerði m.a. við tannhjól á hjóli Bryndísar en keðjan hafði farið nokkrum sinnum út af hjá henni.

Eftir gott spjall hjá Óla og inntöku á orkudrykkjum, Snickers og flatbrauði var haldið í brattann upp Öxi og gekk bara vel. Stoppuðum þó reglulega og fengum okkur orku. Uppi á Öxi var svo þokuslæðingur en það var bæði milt og hlýtt í þokunni og mjög þægilegt að fá smá svala um sig.  En er stutt hafði verið farið birti til á ný og þá brunuðum við út Öxina á fleygiferð og það var sannast sagna alveg frábært að láta sig renna þarna nánast án fyrirhafnar alla leið út að Skriðuvatni.

Þegar komið var lengra út á hérað kom svo smá vindur í fangið og þá tók aðeins í, smá sinadrættir í lærvöðva en annars allt innan marka. Svo þegar nálgaðist Egilsstaði var Öxin góða sem við höfðum meðferðis dreginn upp og með hana á lofti hjóluðum við að krossgötum að Egilsstaðabýlinu þar sem formaður bæjarráðs á Fljótsdalshéraði, Gunnar bóndi, tók á móti okkar ásamt Stefáni Braga og Óðni Gunnari starfsmönnum hjá Fljótsdalshéraði.  Þarna fengum við aldeilis frábærar móttökur og þar færði Gunnar okkur heilmikla Öxi og svo sitt lítið af hverju frá frábærri framleiðslu sinni frá Egilsstaðabýlinu.  Einnig voru sjónvarpsfréttamenn á svæðinu og fréttamaður frá Austurglugganum.

Það var því ljóst að þessi ferð okkar til stuðnings Axarvegi hafði vakið mikla athygli þótt ég hafi fyrst getið um uppátækið á heimssíðu Djúpavogshrepps í gærmorgun. Auk þessara höfðinglegu móttökuathafnar framan við Egilsstaðabýlið var okkur boðið í sund og var það vel þegið að komast í heitu pottana til að ná úr sér mestu strengjunum.  Þá vorum við sömuleiðis boðin í mat af bæjarstjórninni og eftir sundið fórum við því beint á Gistihúsið á Egilsstöðum (auðvitað hjólandi) og snæddum þar fyrirtaks lambakjöt og svo var kaffi á eftir og samhliða áttum við mikið gott spjall við Gunnar og Stefán Braga.  Við þetta tækifæri kvittaði Gunnar formaður bæjarráðs svo á Öxina okkar og staðfesti þar með að við höfðum náð takmarkinu að hjóla þessa 85 km í Egilsstaði. Síðan eftir gott spjall, fengum við góðan spotta hjá Gunnari bónda og bundum hjólin á pallinn á bílnum mínum og brunuðum svo heim á leið.

Andrés Skúlason

Fleiri myndir frá ferðalaginu má sjá með því að smella hér.

 

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.21:00:00
Hiti:1,9 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:15 m/sek
Vindhviður:21 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.21:00:00
Hiti:1,6 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:8 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.21:00:00
Hiti:2,9 °C
Vindátt:VNV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:7 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is