Fréttir
03.05.2011 - Til hunda- og kattaeigenda að gefnu tilefni
 

  Á undanförnum árum hefur borist umtalsverður fjöldi kvartana inn á borð sveitarfélagsins vegna hunda og kattahalds hér í þéttbýlinu og nágrenni þess og er þetta árið engin undantekning.  Fækkað hefur þó  umkvörtunum vegna lausra katta um þorpið eftir að ómerktir /villtir kettir voru teknir úr umferð, þó þurfa kattaeigendur enn að bæta úr í þessum efnum.  Taka skal fram að flestir dýraeigendur virða þau ákvæði í samþykktum sveitarfélagsins sem gilda um hunda- og kattahald og fyrir það skal þakka sérstaklega. Hinsvegar er það svo að nokkur hluti dýraeigenda virðast þurfa að kynna sér innihald samþykkta sveitarfélagsins um hunda- og kattahald mun betur a.m.k. í ljósi fjölda kvartana og ábendinga sem enn eru að berast. 
  
  Sveitarfélög hafa ríkar skyldur í þessum málaflokki sem hefur undið töluvert upp á sig með árunum hér á landi þar sem sitt sýnist hverjum um þróun mála og má þar nefna t.d. nokkuð umdeildan innflutning á ýmsum framandi hundategundum á síðustu árum sem hefur gefist misjafnlega. 

  Þrátt fyrir að hunda og kattahald sé leyfilegt í þéttbýli er það engu að síður svo að dýraeigendur mættu gjarnan í tilfellum stundum setja sig meira spor hinna íbúana sem engan áhuga hafa á dýrum af þessu tagi og vilja t.d. alls ekki fá lausa hunda eða ketti inn á sínar lóðir svo dæmi sé tekið eða verða fyrir truflun vegna hávaða eða óþrifnaðar frá dýrunum að öðru leyti.  Slíkar uppákomur eru einmitt til þess fallnar að skapa misklíð og ósætti milli aðila, sérstaklega þegar um endurtekin brot eru að ræða.  Þá er vert að nefna að það er sannarlega til fólk sem er hrætt við hinar ýmsu hundategundir og það verða hundaeigendur að virða alveg burtséð frá því hvað þeim finnst sjálfum um ágæti eigin dýra.

  Í ljósi þessa eru eigendur beðnir um að hafa hunda aldrei lausa hvorki í þéttbýlinu hér eða á fjölförnum útivistarsvæðum þar sem fólk er mikið á ferðinni eins og t.d. hér út á Búlandsnesi sem almenningur nýtir mikið til útvistar, gönguferða og fl.  Hundum skal því aldrei sleppa lausum á opnum fjölförnum svæðum utan þéttbýlisins nema því aðeins að tryggt sé að það trufli ekki fólk eða hræði.

Þá má nefna að kettir valda stundum ama af svipuðum toga og eiga það meðal annars  til að fara inn um glugga inn í óskyldar íbúðir, þá hafa sumir mikið ofnæmi fyrir köttum og svona mætti áfram telja og allt eru þetta þekkt og endurtekin umkvörtunarefni sem sveitarfélaginu berast með reglulegu millibili frá íbúunum og því er full ástæða til að geta þessa sérstaklega hér í bréfi.   

   Í þessum efnum er því mjög mikilvægt að allir eigendur hunda og katta virði samþykktir sveitarfélagsins um hunda- og kattahald og þá um leið komum við í veg fyrir óþarfa árekstra milli aðila og því er þessi vísa aldrei of oft kveðin.  Búum því ekki til vandamál að óþörfu þegar málið snýst einungis um að fylgja einföldum leiðbeiningum um dýrahald hér í og við þéttbýlið okkar.   

  Staðreyndin er sú að þrátt fyrir að umtalsverður fjöldi kvartana berist þá veigra íbúar sér oft við að tilkynna þótt þeir verði fyrir umtalsverðu ónæði af hundum eða köttum og því miður þarf stundum að ganga töluvert á áður en íbúar missa þolinmæðina í þessum efnum.      

  Flestar kvartanir og ábendingar frá íbúum vegna hunda- og kattahalds berast sveitarfélaginu á vorin og framan af sumri og oftar en ekki er það í tengslum við þegar lifna fer yfir fuglalífinu og hreiðurgerð og varp smærri og stærri fugla er komin á skrið, svo ekki sé talað um þegar ungarnir eru farnir að trítla um svæðið.  Það þarf ekki að orðlengja það að bæði hundar og kettir geta sannarlega  verið skaðræði í varpi fái dýrin að leika lausum hala á þessum viðkvæmasta tíma fuglanna sem nú er að ganga í garð. Það er því mjög mikilvægt t.d. að halda köttum sem mest inni á þessum tíma og helst innan lóðamarka.  Eigendum ber sérstaklega að tryggja að kettir séu hafðir inni á nóttunni og 
að sama skapi eiga hundar auðvitað ekki að vera lausir á þekktum varpsvæðum fugla.    

   Það er von undirritaðs að bæði hunda- og kattaeigendur sem ekki hafa kynnt sér samþykktir sveitarfélagsins nægilega, taki þessum tilmælum vel og virði framvegis samþykktir þær sem um þennan málaflokk gilda, þannig sköpum við gagnkvæma sátt um þessi mál milli íbúana.  

 

  Með þessu bréfi eru allir dýraeigendur hunda og katta hér í Djúpavogshreppi því vinsamlega hvattir til að kynna sér vel innihald samþykkta sveitarfélagsins um hunda- og kattahald í Djúpavogshreppi sjá meðfylgjandi link á heimasíðu sveitarfélagsins. http://djupivogur.is/adalvefur/?pageid=1228

 Sjá meðal annars tilvitn. í reglugerð um hundahald í Djúpavogshreppi.

5.gr Eigendum hunda ber að sjá svo um, eftir því sem framast er unnt, að dýrið valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði né óhollustu. Eigendum eða forráðamönnum hunda er skylt að sjá til þess að saur eftir hundinn sé fjarlægður á tryggilegan hátt. Ef hundur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eigenda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

7. gr Hundar skulu aldrei ganga lausir á almannafæri. Utandyra skulu hundar ávallt vera í taumi í fylgd með aðila, sem hefur fullt vald yfir þeim. Þegar hundur er í festi á húslóð, skal lengd festarinnar við það miðuð að óhindrað megi ganga að aðaldyrum hússins.

 Sjá meðal annars tilvitn. í reglugerð um kattahald í Djúpavogshreppi.

6. gr. Eigenda kattar ber, eftir því sem framast er unnt, að sjá svo um að köttur hans valdi ekki hávaða, ónæði, óþrifnaði né óhollustu.  Ef köttur veldur nágrönnum eða öðrum ítrekuðu ónæði, óþrifum eða tjóni, þá ber eigenda eða forráðamanni að leita leiða til að koma í veg fyrir slíkt.

9.gr. Leyfishöfum ber að taka tillit til fuglalífs á varptíma, eftir því sem tök eru á, t.d. með því að hengja bjöllur á hálsólar katta og halda þeim ávallt innandyra á nóttunni. Leyfishafa ber að hafa sandkassa fyrir köttinn á lóð sinni.

 

                                                                                                    Form.umhverfisn.Dpv.
                                                                                                        Andrés Skúlason 

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.00:00:00
Hiti:-1,9 °C
Vindátt:NA
Vindhraði:7 m/sek
Vindhviður:8 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.00:00:00
Hiti:-1,5 °C
Vindátt:A
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:6 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.00:00:00
Hiti:-1,1 °C
Vindátt:A
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is