Fréttir
16.03.2007 - Til katta- og hundaeigenda á Djúpavogi.
 

Með bréfi  þessu vill undirritaður koma á framfæri vinsamlegum athugasemdum varðandi hunda- og kattahald í þéttbýlinu hér á Djúpavogi. 

Umkvörtunum til sveitarfélagsins frá íbúum vegna bæði katta- og hundahalds hefur farið fjölgandi á liðnum árum hér í og við þéttbýlið á Djúpavogi og eru því eigendur þessara annars ágætu dýra vinsamlega beðnir um að taka fullt tillit til þessa bréfs.

Því er misjafnlega farið hvernig eigendur virða þær almennu reglur sem um þessi mál gilda.  Undirritaður vill þó halda því fram að í langflestum tilvikum sé um hugsunarleysi að ræða meðal dýrahaldara, þeir átti sig ekki alltaf á því að dýrin þeirra geti valdið miklu ónæði og / eða óþrifnaði.  

Og þar sem eigendum er eðli málsins samkvæmt annt um dýrin sín þá vill það líka aðeins brenna við að þeir bregðist við í töluverðri vörn fyrir dýrið þegar kvartað er undan því. Hverjum þykir jú sinn fugl fagur.

Þessi viðbrögð geta alveg verið skiljanleg, en ef við eigum að lifa í góðri sátt með þessi mál þá verðum við öll að taka tillit hvert til annars bæði þeir sem halda dýrin og svo þeir sem kjósa að hafa engin slík.  Sveitarstjóra er skylt að tilkynna eigendum dýranna ef kvartanir berast út af þeim og eru því íbúar beðnir um að bregðast við með það í huga.

Þá hafa þeir íbúar töluvert til síns máls þegar þeir hafa gagnrýnt sveitarfélagið  að hafa ekki sýnt nægilega eftirfylgni í þessum málaflokki. 

Kattahald í þéttbýlinu.

Töluvert kattahald er í þéttbýlinu hér á Djúpavogi og berast jafnan kvartanir í nokkrum tilvikum á ári hverju. 

Kvartanir hafa verið af ýmsu tagi og skal hér getið um nokkur dæmi.

1.      Kettir fara út fyrir lóðir eigenda sinna og gera þarfir sínar í öðrum görðum, jafnvel í sandkössum þar sem börn eru að leik.  Eðli málsins samkvæmt getur stafað af þessu bæði ónæði og mikill óþrifnaður svo og getur stafað  bein hætta gagnvart börnum sem eru að leik t.d. í sandkössum. 

2.      Kettir skríða inn um glugga hjá óviðkomandi og fara jafnvel í mat og / eða valda öðru ónæði innanhúss.

3.      Kettir drepa mikið af smáfuglum, sérstaklega garðfuglum sem sífellt fleiri íbúar eru að fóðra og / eða reyna að halda í sínum görðum.  Bjöllulausir kettir eiga því ekki að sjást.  Fuglavernd hefur mælt svo fyrir að þeir vilji sjá ketti lokaða inni á varptíma smáfugla frá maí og út júní.  Kettir drepa mikið magn á hverju ári af bæði garðfuglum svo og fuglum á hreiðrum með öllu því sem fylgir.

4.      Töluvert er um ómerkta ketti á Djúpavogi og er stundum erfitt að greina hvort er um villiketti að ræða eða heimilsketti.  Sveitarfélagið hefur heimild til að láta farga ómerktum köttum. Slíkt á þó aðeins að gera að undangenginni auglýsingu svo eigendum gefist ráðrúm til að merkja ketti sína ef það hefur ekki verið gert.

5.      Sveitastjórn vinnur nú að reglugerð um kattahald í bænum  eins og yfirgæfandi fjöldi sveitarfélaga hefur nú þegar gert og verður tekin upp gjaldtaka samkvæmt því, enda ekki talið að það eigi að mismuna katta og hundaeigendum í þessum efnum.

Það er von sveitarfélagsins að kattaeigendur taki fullt tillit til þeirra atriða sem hér hefur verið getið.

  

Hundahald í þéttbýlinu.

Hundahald er einnig umtalsvert í þéttbýlinu hér á Djúpavogi. 

Um hundahald gildir reglugerð hér á Djúpavogi eins og í öðrum þéttbýlisstöðum sem hundaeigendum er að sjálfsögðu skylt að hlýta.

Hið sama gildir í raun um hundahald og kattahald, þ.e. töluverð brögð eru að því að kvartanir berist inn á borð sveitarstjóra vegna þessa dýrahalds í bænum og er ætíð leiðinlegt að þurfa að bera slíkar kvartanir áfram til eigenda.

Meðal umkvörtunarefna vegna hunda sem borist hafa má nefna.

1.      Lausir hundar í bænum (brot á reglum um hundahald, því miður of algeng sjón)

2.      Hávaðamengun frá hundum, gelt stundum samfellt löngum stundum.

3.      Fólk sem hræðist lausa hunda t.d. sem eru á gönguferðum og sjá hlaupandi hunda koma á móti sér og telja jafnvel að þeir muni glefsa eða bíta.

4.      Hundaskítur á gangstéttum og lóðum og í næsta nágrenni við þær, töluvert kvartað undan þessum óþrifnaði að undanförnu.   ( Hundaeigendum er skylt að hreinsa upp eftir hunda sína)

5.      Hundar trufla fuglavarp og raska lífríki við þekkt fuglasvæði í nágrenni Djúpavogs.  Líta verður svo á að hér sé fyrst og fremst um hugsunarleysi að ræða meðal hundaeigenda t.d. þegar hundaeigendur sleppa hundum sínum lausum við varplandið hér út við vötnin Fýluvog, Breiðavog og Nýjalón við flugvöllinn. Þá hafa hundar í stöku tilfellum sést vaða í vötnunum þegar fuglinn er í varpi.  Lausir hundar í varplandi eru skaðræði og geta fælt sjaldgæfa fugla varanlega frá svæðinu.   Benda má því á í þessum tilfellum að ekki er við það að athuga að hundum sé sleppt lausum út við sjó þ.e.  á söndunum fyrir utan enda flugbrautar.

      Mikilvægt er að á tímabilinu frá lok apríl fram að miðjum júli sé hundum alls ekki sleppt lausum á svæðum og í nágrenni þekktra fuglavarplanda í sveitarfélaginu almennt.  Það er hinsvegar að sjálfsögðu ekkert við það að athuga að ganga með hunda í bandi við fuglavarplönd.

 

Með stofnun Félags hundaeigenda á Djúpavogi fyrir skömmu hafa jafnhliða borist fyrirspurnir hvort hægt sé t.d. að skipuleggja sérstakt svæði í nágrenni Djúpavogs þar sem hundaeigendur geti haft afmarkað land út af fyrir sig. Þessi atriði verða  skoðuð samhliða aðalskipulagsgerð sem nú eru í vinnslu ef almennur vilji er fyrir slíku svæði meðal hundaeigenda.

Nú er unnið að því að ganga frá nýrri reglugerð um “hunda- og kattahald í Djúpavogshreppi”. Samhliða henni er fyrirsjáanlegur aukinn kostnaður sveitarfélagsins vegna eftirlits með þessum gæludýrum og kunna gjaldskrár að hækka af þeim sökum. Einnig er gert ráð fyrir því í nýjum reglugerðum að sveitarfélög þurfi að handsama og geyma dýr, en samfara því getur orðið mikill kostnaður. Fari hins vegar eigendur þessara dýra að settum og/eða óskráðum reglum um dýrahald af þessu tagi er ljóst að opinber afskipti sveitarfélagsins yrðu í lágmarki.

Það er von okkar að bæði katta- og  hundaeigendur líti á þetta bréf sem vinsamleg tilmæli. Í þessum málum eins og öðrum taka menn reglugerðir af mismikilli alvöru en þegar upp er staðið þá er það fyrst og fremst gagnkvæm tilitsemi milli hunda- og kattaeigenda og svo þeirra ekki halda dýr sem skiptir mestu máli. Munum svo að það styttist í að fuglarnir fara að fljúga inn á landið og við skulum því sameinast um að taka vel á móti þeim. Gerum góðan bæ enn betri í þessum málum sem og öðrum.

 

                                    Með von góðar viðtökur

                     Form. Umhverfisnefndar Djúpavogshrepps; Andrés Skúlason


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.07:00:00
Hiti:4,7 °C
Vindátt:VSV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.07:00:00
Hiti:3,1 °C
Vindátt:N
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.07:00:00
Hiti:4,8 °C
Vindátt:A
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 20.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is