Fréttir
21.04.2012 - Annar í Hammond 2012
 

Hið hefðbundna korter tvöfaldaðist, meðan menn voru að gíra sig upp og efna til veizlufanga, en  svo byrjaði kvöld nr. 2. Á sviðið steig úrvalslið hins sextuga Björgvins Gíslasonar. Já, það var svo sannarlega úrvalslið, sem keppti saman og innbyrðis á toppnum, þótt það væri í tveim deildum, aldurslega séð, eins Bjöggi Gísla orðaði það; trommarinn Geiri Óskars, bassaleikarinn Halli Þorsteins og gítarleikarinn Bjöggi (og gott ef ekki einn fermingarbróðir enn). Í yngri  deildinni voru Johnny B Good = Jón óvenjugóði á Hammondorgelinu og sjálfur Gummi Pé með hinn gítarinn. Sönginn annaðist úr þeirri deild en fyrir hópinn í heild Björgvin Ploder, sem sniglaðist upp á sviðið eftir tvö verk, hvar af það fyrra reis úr mikilli dulúð, án þess að flestir í salnum tæku eftir að þar væri verið að ýta úr vör, yfir í það verða undir, yfir og allt um kring, jafnvel með örlitlum Pink Floyd fílingi í stutta stund, svona ljóð án orða, í bragarhætti sonnettu.  Annálsritara minnir að Bjöggi hafi kynnt næsta verk sem „Ambrosia“, og þá var fönkið orðið jazz skotnara. Þá strax og ekki síður þegar Ploderinn var búinn að kyrja sitt fyrsta lag, fengu viðstaddir vel á tilfinninguna að þeir væru viðstaddir atburð, sem svo sannarlega væri þess virði að taka þátt í, burtséð frá því hvort einhverjir þeirra kæmust til tunglsins síðar meir.

Já, það voru svo sannarlega merkilegir tónleikar á Hótel Framtíð þetta kvöld, sem hófust í þann mund, sem Fljótsdalshérað var að leggja Garðabæ í Útsvarinu. Ekki endilega mesta stuðið, þegar saga Hammond hátíðarinnar er skoðuð í heild, en þó var salurinn glettilega vel með á nótunum. Þarna var margt vissulega „öðru vísi“, en oft áður. Þótt „fönk“ sé líklega ekki tónlistin til að drekka sig til með fyrir Geirmundarballið á Skjöldólfsstöðum (séu menn að fara þangað), er ferlega flott að sjá svona afburða spilara fremja það á sviði, einkum þegar frábær ljósabúnaður er nýttur af kunnáttu. En það var ekki bara systirin Fönk, sem mætt var þarna geislandi af gleði, heldur kom bróðir hennar Fúsi Jón einnig mjög við sögu, og jafnvel Reggí frænka þeirra. Vissulega væri vert að gera betur skil einstökum verkum, en þeir félagar hristu þetta allt fram úr ermum eins og að skeina sig með vinstri. Geiri lét hendur standa fram úr á stuttermabolnum, en hvíldi  þó kjuðana í einu verkinu, meðan trommusettið hans Óla okkar trommara var að kólna niður. Oftar hélt hann þeim samt  í sterkum greipum sínum og kom sínu af alkunnri festu og öryggi til skila, enda ekki amalegur meðreiðarsveinn í þeim hluta bandsins, sem gjarnan er kallaður „hrynsveitin“. Þá er átt við bassaleikarann Halla Þorsteins, sem satt að segja var afburðaþéttur og er þá vægt til orða tekið. Og hvað er hægt að segja um þátt tveggja stórklassa gítarleikara, þegar Gummi Pé er á stundum bara „co pilot“ á sinn afslappaða og agaða hátt. Um færni Jóns óvenjugóða á Hammondið þarf ekki að hafa mörg orð og hann þarf vissulega ekki að sanna sig, en gerir það samt. Hin sérstaka og kraftmikla rödd Plodersins varð svo sannarlega heldur ekki til að skemma samkunduna.  Og ekki má gleyma því að hljómsveitarstjórinn hefur vissulega samið mörg afburða tónverk, sem reyndar kalla á meiri kunnáttu en grunnþekkingu í vinnukonugripum í flutningi. Þeim voru svo sannarlega gerð góð skil þarna og er ástæða til að gefa tónskáldinu „þömbs öpp“, því titilinn tónskáld ber það (hann) með sóma.

Kynningar þeirra félaga voru yfirleitt stuttar og með yfirbragð léttleika eftir örlítið hik í byrjun, en síðan varð þetta „kammó“ og skemmtilegt, þvert ofan í það sem Bjöggi sagði í byrjun að prógrammið væri yfirleitt leiðinlegt, en tæki fljótt af. Allir hljóðfæraleikararnir nutu sín vel og komu sínum og annarra manna vikivökum til skila. Þeir fóru fyrst af alvöru yfir í rokkið eftir hlé, en aldrei var langt í „glettur og gigg“ af beztu sort. Og svo var þetta allt í einu búið og uppklappslagið tekið áður en uppklappið kom af því að salurinn á Hótel Framtíð er svo langur í annan endann að Bjöggi nennti ekki að ganga fram og til baka, enda á leiðinni í Hveragerði að eigin sögn.

Bandið hans Bjögga komst samt ekki upp með að skila ekki uppklappslagi og var það úr smiðju The Band. Lagið var The Weight (Take a load off Annie / Fanny), sem leggja mætti út  „Fargið“ (Léttu byrð‘ af Láru / Báru). Þá settist Sniglabandstrommarinn við settið og söng þetta ágæta lag til minningar um trommuleikara The Band, Levon Helm, sem nú er allur. Og etv. segir það allt sem segja þarf, að þeir félagar skyldu velja að kveðja með verki The Band, þó að það hafi nú líklega verið ómeðvitað hjá þeim, en öllu fremur gefið annálsritara tækifæri til að koma með „pönslænið“, sem er þetta: Sé litið til sögu Hammondhátíðar Djúpavogs frá upphafi skynjaði hann það strax á sjálfum tónleikunum og í kjölfar stuttra hrifningarstuna vina sinna, sem meira skynbragð hafa á tónlist en hann, að með framgöngu sinni urðu þeir „Ðe Band“, þegar afrakstur hátíðarinnar öll árin sex og hálfu meir er skoðaður í samhengi.

Myndir má sjá hér

Myndir: AS
Texti: bhg


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.01:00:00
Hiti:2,1 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:16 m/sek
Vindhviður:20 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.01:00:00
Hiti:1,2 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:7 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.01:00:00
Hiti:1,7 °C
Vindátt:NNV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 29.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is