Fréttir
22.04.2012 - Þriðji í Hammond 2012
 

Og svo rann 3ja kvöldið upp eftir afslappaða bið í hinn bráðum hefðbundna hálftíma m/v auglýsta dagskrá. Í boði voru Megas og Senuþjófarnir og var greinilegt að margir vildu berja augum Megas, átrúnaðargoð sitt frá fornu fari og jafnvel til dagsins í dag, þegar sumir fíla hann enn betur eftir að Senuþjófarnir komu til leiks. Etv. voru þarna einhverjir af nágrönnum hans til forna, meðan hann bjó í skamman tíma hér á Djúpavogi. Alla vega var þetta bezta kvöldið mætingarlega séð.

Megas tók flugið seint austur og einhvern veginn fannst annálsritara hann taka flugið seint, en Megas er jú Megas og þarf ekki að þenja sig á fullu (me-)gasi til að koma sínu til skila. Senuþjófarnir eru fínir spilarar, en samt fannst manni bera á ákveðnu óöryggi á köflum og jafnvel æfingaleysi. Afleiðingar slíks voru þó í lágmarki vegna röggsemi Guðmundar Péturssonar, sem er „Victor Silvester“ þessarar grúppu, svona út í frá, þótt líklega hafi hann ekki komið henni á laggirnar. Hjómsveitin er öllu fremur hluti bæjarútgerðar þeirrar, sem kennd er við annars konar aflabrögð en hinna „grand(a)vöru samherjamanna, hverrar systurskip eru Hjálmar og „Laggabútur“. Annálsritari hafði velt því fyrir sér fyrir tónleikana, hvaða skipi útgerðarinnar; Senuþjófunum, Hjálmum, eða Baggalútunum yrði lagt, kæmi hið nýja kvótafrumvarp of illa við þessa útgerð. Niðurstaðan hafði fyrirfram orðið sú að mest líkindi væru til þess að hið fyrst nefnda „prósjektið“ yrði hengt á bryggjupollana og sú skoðun mín breyttist ekki framan af tónleikunum í gær. En þegar menn settu í botn undir lokin og hristu m.a. fram skemmtilegar útsetningar eins og á „Spáðu í mig“ varð ég ekki eins sannfærður.

Já, vel á minnst; Ég samt ekki  viss um að áhrif framangreindrar kvótaskerðingar myndi hafa slæm áhrif á Megas, því hann gæti í kjölfar slíkra breytinga orðið sinn eigin skipherra á nýjan leik og farið yfir í smábátakerfi, líklega þó með snjallan akkústikk gítarleikara með sér og þannig horfið til fortíðar eins og við mörg hver þekkjum hann bezt.
Megas var sjálfum sér líkur og passlega mikið út á þekju, enda vantar bara einn metra í að hátt sé til lofts í salnum. Hann kom sínu til skila og allir vita að hann hefur samið og er að semja góð lög. Textar hans eru hafnir yfir alla gagnrýni, en menn þurfa að hafa þá á hreinu, þegar mætt er á slíka tónleika þar sem „telepromterinn“ (textavélin) snýr alla jafna öfugt frá áheyrendum séð.

Gaman var að fylgjast með tónleikagestum, sem voru ríflega 150, þegar allt var talið. Ekki síst reyndi á hálsliði margra allt frá banakringlunni niður til liðar nr. 7, þegar menn sveifluðu höfðinu fram og aftur í viðurkenningarskyni og slógu þannig taktinn á sinn hátt. Einstaka maður hellti jafnvel úr eyrunum af ánægju. Salurinn var sem sagt vel með á nótunum og brást vel við því sem fram var reitt og ljóst að stuðið þarna var meira en á hinum kvöldunum og það því hið bezta hingað til í slíku tilliti. Það segir þó ekkert til um aðra þætti og er bent á umfjöllun um kvöld nr. eitt og tvö til frekari samanburðar.

Megasi og Senuþjófunum tókst alla vega að halda senunni til loka, þótt atlaga væri að þeim gerð um hríð.

Hafi þeir hina beztu þökk fyrir, sem og tæknifólkið, er sá um að koma afurðum þeirra til skila og magna þær upp m.a. með brellum ljósabúnaðarins á staðnum.

Myndir má sjá með því að smella hér.

Texti: BHG
Myndir: AS


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.03:00:00
Hiti:-1,4 °C
Vindátt:NA
Vindhraði:7 m/sek
Vindhviður:10 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.03:00:00
Hiti:-1,7 °C
Vindátt:SV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.03:00:00
Hiti:-1,8 °C
Vindátt:V
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is