Fréttir
07.09.2012 - Ráðherrar í heimsókn á Djúpavogi
 

Það hefur verið í nógu að snúast að undanförnu fyrir fulltrúa sveitarstjórnar Djúpavogshrepps svona með öðrum verkum  að undirbúa og taka á móti ráðherrum sem hafa sótt sveitarfélagið heim á síðustu dögum.  

Þann 29. ágúst heimsótti Katrín Jakobsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra Djúpavog ásamt fríðu föruneyti.  Tekið var á móti ráðherra í menningarhúsinu Löngubúð, þar sem sveitarstjóri og oddviti fóru yfir ýmis þjóðþrifamál er brenna á sveitarfélaginu í málaflokkum sem snerta viðkomandi ráðherra.  Þá var ráðherra menningarmála mjög áfram um að kynna sér Ríkarðssafn og allt í kringum þá starfsemi sem í Löngubúð er.  Í lok heimsóknar óskaði ráðherra eftir að fá að sjá listaverkið í Gleðivík eftir Sigurð Guðmundsson og var hún að sjálfsögðu mjög hrifinn af því eins og aðrir þeir sem hafa litið þetta stórkostlega listaverk augum.  Ráðherra og fylgdarlið keyrðu svo áfram suður á bóginn eftir velheppnaða heimsókn hingað til Djúpavogs. Gaman annars  frá því að segja að ráðherra Katrín hafði sérstaklega orð á því hve það væri mikið líf í bænum á Djúpavogi þegar hún mætti, bara allt iðandi af lífi.   

Þann 5. sept. mættu svo helstu frammámenn samgöngumála  í heimsókn á Djúpavog, en þar fór fremstur í flokki innanríkisráðherra sem fer með samgöngumál og svo vegamálastjóri ásamt fylgdarliði,  samtals 8 aðilar, þá var Valgerður Andrésdóttir eiginkona ráðherra með í för.  Ráðherra kom akandi með föruneyti frá Reyðarfirði stystu leið um Öxi á Djúpavog og lýsti ómældri hrifningu sinni á þessari leið sem hann var að fara í fyrsta skipti á ævinni.  

Tekið var á móti innanríkisráðherra og fylgdarliði í Löngubúð og þegar sveitarstjóri hafði boðið gesti velkomna og farið nokkrum orðum yfir ýmis mál hér í okkar ágæta samfélagi á Djúpavogi birti oddviti glærur á tjaldi þar sem hann fór yfir helstu áherslur Djúpavogshrepps í samgöngumálum og bar Axarvegur með tilheyrandi framkvæmdum í botni Berufjarðar og Skriðdals þar auðvitað höfuð og herðar yfir önnur mál.  

Að fyrirlestri oddvita loknum tóku ráðherra og vegamálastjóri síðan til máls og fóru yfir ýmis mál, m.a. samgönguáætlun og margt fl.   Eftir góðar samræður og spjall um samgöngumál og síðan einnig önnur málefni er snúa að sveitarstjórnarstiginu þá lýsti ráðherra sérstakri ánægju með þann mikla kraft sem væri í forsvarsmönnum sveitarfélagsins við eftirfylgni í samgöngumálunum og hvatti heimamenn til áframhaldandi báráttu fyrir þeim áherslum sem sveitarfélagið hefur. 

Við lok heimsóknar færði sveitarstjóri innanríkisráðherra að gjöf bækur tvær eftir Ingimar Sveinsson, áritaðar af höfundi.  Þá bætti sveitarstjóri við annarri góðri gjöf sem var útskorinn Öxi úr hreindýrshorni unnin af hagleiksmanninum Hauki Elíssyni frá Starmýri. Á öxina hafði svo Jón Friðrik grafið haganlega texta " Öxi fyrir alla". Ferð ráðherra lauk á sama hátt og mennta- og menningaráðherra þ.e. hjá listaverkinu í Gleðivík en innanríkisráðherra hafði sömuleiðis mikinn áhuga á að skoða listaverkið og má segja að aðdáun þessa hóps hafi ekki verið minni en hinna og kvöddu menn því glaðir í sinni eftir góða heimsókn til Djúpavogs.

AS

 

Oddviti og ráðherra mennta- og menningar við listaverkið í Gleðivík 

Innanríkisráðherra, vegamálastjóri og embættismenn ráðuneytis ásamt
hluta sveitarstjórnar og sveitarstjóra Djúpavogshrepps

Sveitarstjóri færir Innanríkisráðherra gjöf

Öxi fyrir alla 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.07:00:00
Hiti:-0,8 °C
Vindátt:Logn
Vindhraði:0 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.07:00:00
Hiti:-1,2 °C
Vindátt:N
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.07:00:00
Hiti:-0,3 °C
Vindátt:Logn
Vindhraði:0 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is