Fréttir
02.06.2007 - Ekki versnar það .......
 
Jæja, þá hélt Hammond hátíðin á Djúpavogi áfram föstudagskvöldið 1. júní.

Nú heimsóttu okkur Austfirðingar, annars vegar úr suðri og hins vegar austan að.

Fyrstir stigu á svið Hornfirðingarnir, sem hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, kallaði Mæðusveit Sigurbjarnar, en það var snarlega leiðrétt af talsmanni hljómsveitarinnar, Bjössa söngvara. Þrír meðlimir heita Sigurður (Guðnason á gítar - Hannesson á bassa - Kr. Sigurðsson á trommur) og einn heitir Björn (Sigfinnsson, söngvari), þannig að þetta er Mæðusveitin Sigurbjörn (ekki rugla saman við SigurRós).

Þeir voru með 2 gestaspilara; hljómborðsleikarann, Heiðar, son Sigurðar bassaleikara, en hann var þrælfínn og Önnu Lilju Karlsdóttur, sem bæði er góður trompetleikari og “töff” söngvari. Auk þess tók Hulda Rós, dóttir Sigurðar gítarleikara 2 lög, sem hefðu mátt vera fleiri, því þar er efnileg stúlka á ferð með afburða góða rödd.

Mæðusveitin gerði góða hluti og ljóst að þeim er margt til lista lagt. Lagavalið í heildina var gott og fögnuðu áheyrendur þeim vel, en þeir voru því miður helmingi færri en fyrsta kvöldið. Meðlimir Mæðusveitarinnar þekkja sín takmörk og ljóst að þeir eiga eftir að vaxa á komandi blúshátíðum á Hornafirði og koma vonandi aftur hingað á Djúpavog.

Garðar Harðar var mættur á svæðið með Blúsbrot sitt, skipað hljóðfæraleikurum úr Fjarðabyggð. Slagverksleikarinn Otto Meier, sem segir frá í umfjöllun um 1. kvöldið borðaði ekkert fyrir tónleikana, þar sem hann skildi málið þannig að Garðar ætlaði að útdeila Blúsbrauði líkt og frelsarinn forðum (orðið “brot” á þýzku þýðir “bauð”). Þetta leiðréttist þó fljótt og Garðar og félagar útdeildu þess í stað firna góðri tónlist og náðu hörku tökum á salnum.

Með Garðari í för voru Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Jóhannes M. Pétursson (Jói á Gili) á bassa, Pétur Hallgrímsson á trommur, Jón Hilmar Kárason á gítar og Guðjón Steinþórsson, einnig á gítar. Auk þess að syngja, þandi Garðar sjálfur svo þriðja gítarinn.

Skemmst er frá því að segja að Blúsbrotið á fullt erindi á hvaða hátíð sem er af þessu tagi. Jón Hilmar er jú bezti gítarleikari á Austurlandi og Garðar, sem gefur honum lítið eftir í snilld á hljóðfærið, er óumdeilanlega snjallasti blússöngvari í fjórðungnum og réttnefndur BLÚSKÓNGUR. Pétur er viðurkenndur trommari og stendur ætíð vel fyrir sínu og Jói, sem líklega hefur spilað minnst þeirra í seinni tíð gerði það sem góður bassaleikari á að gera, fylla upp í bítið en halda sér passlega til hlés. Það þarf ekki að fara orðum um færni Ágústar Ármanns, þegar hljómlist er annars vegar og þótt hann væri að spila á Hammond í fyrsta sinn í 31 ár, virtist það ekki há honum. Guðjón er líka fanta góður á gítarinn en hafði sig of lítið í frammi.

Sem sagt; Annað kvöldið var þrælgott og öllum, sem að komu til sóma. Félagarnir í Blúsbrotinu tóku það sérstaklega fram við undirritaðan að þeir fögnuðu þessu framtaki með Hammond – hátíðina hér á Djúpavogi og telja Svavar eiga mikinn heiður skilinn fyrir að koma henni á.

Svo er bara að bíða eftir Agnari Má og Hrund í Löngubúð og landsliðinu, sem mætir á svæðið í kvöld og þá dugir ekkert minna en Íþróttamiðstöð Djúpavogs.

Við endum svo Hammond-hátíðina á Djúpavogi 2007 með sunnudagsmessu í Djúpavogskirkju kl. 11:00, þar sem hljóðfærið verður í einu af aðalhlutverkunum

Nálgast má myndir frá kvöldinu hér .

Myndir og texti: BHG


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.12:00:00
Hiti:1,5 °C
Vindátt:N
Vindhraði:10 m/sek
Vindhviður:21 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.12:00:00
Hiti:1,1 °C
Vindátt:N
Vindhraði:7 m/sek
Vindhviður:10 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.12:00:00
Hiti:1,7 °C
Vindátt:V
Vindhraði:9 m/sek
Vindhviður:14 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 29.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is