Fréttir
26.04.2006 - Hammondhátið Djúpavogs
 

Í litlu þorpi á Austurlandi var mikið um dýrðir á Hammondhátíð sem var haldinn á Djúpavogi þann 20.-23. apríl 2006.

   Hátíðin var haldin til að heiðra og kynna fyrir tónlistaraðdáendum Hammondorgelið sem úrsmiðurinn Hammond töfraði úr huga sínum til að geta gert fátækum söfnuðum kleift að syngja við orgelundirleik.

   Hver heimsviðburðurinn af fætur öðrum leit dagsins ljós á hátíðinni og geta aðstandendur hennar, Tónlistarfélag Djúpavogs og heimamenn allir verið stoltir af að hafa hrint af stað þessari framkvæmd, en hugmyndina að henni og langstærstan heiður af framkvæmd hátíðarinnar á Svavar Sigurðsson.

   Fyrsta kvöldið sáu heimamenn á Djúpavogi um að bjóða gestum upp á afar fjölbreytta dagskrá sem samanstóð af djass, blús, klassík, rokki og frumsömdu efni, þar sem síðast en ekki síst voru flutt nokkur lög eftir “BB Prince” sem er listamannsnafn sveitarstjórans á Djúpavogi, Björns Hafþórs Guðmundssonar.

 

Fram komu fyrir utan aldursforsetann; Bj. Hafþór á gítar, Vordís á þverflautu, Silvia söngur, Helga söngur, Helgi gítar, Jón Einar gítar, Þorleifur bassi, Arnar Jón trommur, Kjartan bassi, Bjartur trommur, Ægir gítar, Guðmundur bassi, Andre gítar, Aron saxófón og svo Svavar og Jóhann Atli, sem léku listir sínar á orgelið. Þarna vantaði ekki spilagleðina en hún var að öðrum ólöstuðum, líklega mest hjá Andre Sandö, 10 ára gömlum gítarleikara sem tók blús af bestu gerð við mikinn fögnuð tónleikagesta.

   Á föstudagskvöldinu lék orgeltríóið B-3 listir sínar á Hótel Framtíð við frábærar undirtektir gesta. Agnar Már Magnússon töfraði fram jass af bestu gerð á orgelið og naut stuðnings félaga sinn Eric Qvick á trommur og Ásgeirs Ásgeirssonar á gítar. Mjög góð stemming var í salnum og sást glöggt, hve góð áhrif lifandi tónlist getur haft á viðstadda, þar sem allir viðstaddir voru e.t.v. ekki einlægir jass-geggjarar við komuna, en kunnu svo sannarlega að meta framlag þeirra félaga.

 

   Laugardagurinn byrjaði á tónleikum í Djúpavogskirkju með tenórnum Bergþóri Pálssyni og Hammondspilarans Davíð Þórs Jónssonar, sem lét sér ekki nægja að leika einungis á Hammondinn, heldur tók öll hljóðfærin í kirkjunni til kostanna. Þeir fengu svo til liðs við sig Kvennakór Hornafjarðar í lokanúmerið eftir að hafa fengið salinn til að syngja af hjartans lyst í nokkrum lögum á undan. Þvílíkir listamenn !!!

  Davíð þór Jónsson fór svo hamförum á Hammondið um kvöldið á Hótel Framtíð ásamt “Landsliðinu” en í hópinn komust í þetta sinn engir aðrir en Birgir Baldursson á trommur, Þorleifur Guðjónsson á bassa, Sigurður “centár” Sigurðsson á munnhörpu og raddbönd, Björgvin Gíslason á gítar og síðast en ekki síst Halldór “mr. Blues” Bragason á gítar en hann studdi hátíðina með ráðum og dáð allt frá því að upphafsmaðurinn Svavar Sigurðsson viðraði hugmyndina að hátíðinni fyrir rúmu ári. Salurinn var svo sannarlega með á nótunum og fagnaði þeim félögum gífurlega og mátti glöggt sjá, hve vel tónlistarmennirnir sjálfir nutu stundarinnar. Glæsilegir tónleikar !!!!

 

   Lokaviðburður hátíðarinnar sem fram fór í Djúpavogskirkju, hófst á því að Davíð þór lék nokkur af Goldberg tilbrigðum Bachs og bætti svo einu tilbrigði við eftir sjálfan sig en þar dugðu engir tíu fingur til og bættist því við tunga og nef. Í kirkjunni voru tvö Hammond, annað þeirra frá 1948 í eigu Davíðs og svo orgelið sem var í eigu Karls heitins Sighvatssonar. Davíð kallaði því upp Svavar Sigurðsson og eftir nokkrar klassískar hugleiðingar brugðu þeir sér til Afríku og enduðu svo á syrpu af íslenskum slögurum.

 

    Tónlistarfélag Djúpavogs vill þakka eftirtöldum aðilum ómetanlegan stuðning:

Menningarráði Austurlands, Salar Islandica, Hótel Framtíð, Djúpavogskirkju, Djúpavogshreppi, Aðalflutningum, Sparisjóði Hornafjarðar og nágrennis, Vísi hf. og Flugfélagi Íslands.

    Einnig er öllum þeim, sem sóttu hátíðina þakkað framlag þeirra og einstaklega góð viðbrögð við öllum atburðum, sem boðið var upp á þessa menningardaga á Djúpavogi.

    Á þessari stundu er engu lofað með framhaldið, en forsvarsmenn hátíðarinnar eru sannfærðir um að orðspor hennar hefur spurst út og telja næsta víst að yrði sambærileg hátíð haldin að ári, myndu enn fleiri nýta sér þau tækifæri, sem í boði yrðu.


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.21:00:00
Hiti:-1,1 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:6 m/sek
Vindhviður:7 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.21:00:00
Hiti:-0,8 °C
Vindátt:ASA
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:6 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.21:00:00
Hiti:-0,7 °C
Vindátt:A
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 18.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is