Fréttir
18.07.2007 - Skemmtiferðaskipið Masdaam
 

Þriðjudaginn 17. júlí skreið inn á Berufjörð tígulegt skemmtiferðaskip að nafni MAASDAM. Skipið er skráð í Hollandi og er í eigu “Holland America Line”, sem reyndar er með aðsetur í Bandaríkjunum. Það lagði upp í siglinguna frá Boston 7. júlí s.l. og stendur ferðin í 35 daga. Viðkomustaðir á Íslandi munu verða Reykjavík, Djúpivogur, Seyðisfjörður og
Akureyri.

Líklega er um að ræða stærsta skip sem komið hefur í Berufjörð, en það er yfir 55 þúsund brúttórúmlestir. Helztu stærðartölur aðrar eru:

Lengd: 220 metrar

Breidd: 32 metrar

Djúprista: 7,65 metrar

Fjöldi farþega: 1.152 (Skráð fyrir 1.258)

Áhöfn: 611

Þess má geta að viðlegudýpið í Gleðivík er um 9 metrar, en breidd í rennunni fyrir framan viðlegukantinn er um 30 metrar. Lengdin á viðlegukantinum sjálfum eru 75 metrar. Hafnaryfirvöld á Djúpavogi hafa fyrir nokkru ákveðið
að breikka rennuna við kantinn. Einnig verður reynt að auka dýpið innst henni. Með því að koma upp “pollum” til að festa stór skip að framan og aftan t.d. með því að koma þeim fremri fyrir við kantinn á veginum, sem liggur upp að fiskimjölsverksmiðjunni eru líkur á að skip allt að þessari stærð gætu lagst þar að, sem myndi bæði í senn auðvelda alla móttöku á skipunum sjálfum og flýta fyrir því að farþegar gætu farið í land. Mun þetta verða rætt við hafna- og siglingayfirvöld, t.d. forsvarsmenn Siglingastofnunar.

Mikill fjöldi farþega fór í land á Djúpavogi og var mjög líflegt í miðbænum, meðan á heimsókninni stóð. Farþegar voru ferjaðir með stórum bátum úr skipinu, sem taka um 60 farþega hver. Mikil umferð var að sjálfsögðu í og við höfnina. T.d. fóru 4 rútur með um 140 farþega suður í Jökulsárlón. Yfir 100 farþegar fóru með fjórhjóladrifnum bílum í Safari-ferð upp á Fossárdal. Um 130 farþegar fóru út í Papey, bæði með Papeyjarferjunni, Gísla í Papey og einnig með stærri ferju í eigu Fjarðasiglinga á Norðfirði. Síðast en ekki sízt notuðu margir farþeganna tækifærið og gengu um Djúpavog, skoðuðu söfnin
þar, fóru í handverkshús eða kusu að koma sér fyrir uppi á Brennikletti til að ná góðum myndum af mannlífi og náttúru. Um 35 manns munu hafa farið í sérstaka fuglaskoðunarferð undir leiðsögn. Heimamenn tóku virkan þátt í öllu þessu með einum eða öðrum hætti, hvort sem það var leiðsögn, akstur eða bakstur. Varlega áætlað voru um 1.200 aðkomumenn á ferli á þessum tíma þar sem fjöldi annarra ferðamanna var á staðnum, bæði á tjaldsvæði, á eigin vegum eða t.d. í rútum.

Erfitt er að reikna út hve mikið ein svona skipakoma skilur eftir sig, en ljóst er að í fyrsta lagi er hún “vítamínsprauta” fyrir ýmsa, sem bjóða upp á þjónustu hér á Djúpavogi. Hún skiptir verulegu máli fyrir eigendur flutningatækja og flest þeirra komu langt að, þótt vissulega nytu heimamenn einnig góðs af. Skipakoman þýðir tekjur fyrir Djúpavogshöfn og síðast en
ekki sízt lærðu menn ýmislegt af gærdeginum sem ætti að gera okkur öll hæfari að takast á við svona verkefni næst. Leiðsögumenn víða að á Austurlandi njóta góðs af sem og seljendur veitinga. T.d. þurfti að nesta farþegana, er fóru í ævintýraferðirnar suður í Jökulsárlón og upp á Fossárdal.

Þess má geta að bæjaryfirvöld á Hornafirði og við hér á Djúpavogi höfum komið upp ákveðnu samstarfi til að vinna að markaðssetningu o.fl. vegna skemmtiferðaskipa. Ljóst er höfnin hér nýtur yfirburða þegar stærri skip eiga í hlut. Hins vegar gerum við okkur ljóst að ein af ástæðum þess að skipin koma hingað en ekki annað, er ýmis afþreying, sem boðið er upp á í Austur-Skaftafellssýslu. Má þar nefna siglingu um Jökulsárlón, ferðir upp á Vatnajökul og nýjungu í ferðaþjónustu á Höfn, sem er akstur á fjórhjólum um Suðurfjörur. Forsvarsmenn sveitarfélaganna ætla að hittast í haust og fara yfir ýmis atriði þessu tengd og fullyrða má að samstarf mun styrkja ferðaþjónustu á Suð-Austurlandi í heild.

Í þessari samantekt verður ekki greint frá einstökum ferðum í gær, en hér getið lesið frásögn frá ferð “sendinefndar” Djúpavogshrepps um borð í skipið. Einnig verður myndasyrpa henni tengd, en ýmsar myndir fylgja
þessari samantekt.

Nálgast má myndir af skipinu og farþegum að spóka sig með því að smella hér

Texti: BHG, KI

Myndir: ASG, BHG, ÓB

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.15:00:00
Hiti:2,1 °C
Vindátt:VSV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.15:00:00
Hiti:1,0 °C
Vindátt:SSA
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.15:00:00
Hiti:1,3 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is