Fréttir
09.08.2007 - Tvímenningur / Tvímenningar
 
Margir tindar í Djúpavogshreppi eru verðugt verkefni að glíma við fyrir þá, sem þrífast á því að klífa tinda. Þekktastur þeirra er Búlandstindur. Vitað er um fjölda fólks, sem gengið hefur á hann á þessu ári. Svo hefur verið í áratugi að menn hafa lagt á sig ómælt erfiði til að njóta hins einstaka útsýnis, sem þaðan er. Snjótindur er einnig vinsælt viðfangsefni og Sunnutindur hefur lengi verið ákveðin áskorun þeim, sem vilja komast upp í þynnra loft. Þaðan er stutt á Þrándarjökul. Auk framangreindra gönguleiða, má þess geta að ætíð fara af og til gönguhópar frá kofanum við Leirás í Múladal og yfir í Víðidal eða öfugt.
Fjall eitt í fjallgarðinum sunnan Flugustaðadals heitir Tvímenningar skv. upplýsingum í hinni frábæru Ferðafélagsbók, sem Hjörleifur Guttormsson tók saman og kom út 2001. Undir tindinum er hins vegar skv. texta og korti í sömu bók Tvímenningsgil (sjá bls. 33), sem leiðir hugann að því hvort tindurinn heiti ekki Tvímenningur. Álykta má að nafnið dragi tindurinn af tveimur dröngum, sem teygja sig til himins efst á honum og sjást óglöggt (án kíkis) af þjóðveginum austan við Hofsárbrúna. Etv. er nafngiftin komin af því að greinileg andlit og líkama “trölla” má lesa út úr dröngunum, standi maður vestan við þá, en hæpið er að þeir, sem “örnefndu” í árdaga hafi verið að þvælast hærra upp til fjalla, en þeir máttu til. Leyfi ég mér að draga þá ályktun að “manns- eða tröllamyndirnar”, sem sjást úr Flugustaðadal , séu ástæða nafngiftarinnar .
Tvímenningur (verður kallaður svo hér eftir) hefur verið mun minna klifinn en Búlandstindur og Sunnutindur, enda ekki í alfaraleið. Ljóst er hins vegar að útsýni þaðan er einstakt og að gangan upp að tindinum er nánast bara þægileg “fótavinna”. Að raun um þetta komust tveir göngufélagar á frídegi verzlunarmanna, 6. ágúst 2007; Kristján “tindaskelfir” Karlsson og sá, er þessar línur ritar. Farið var upp Hakahlíðarfjall, milli Hakagils og Tvímenningsgils, þaðan í gegnum skarð austan við tindinn og áð í skriðufæti sunnan við hann. Þar smökkuðust súkkulaðihúðaðar rúsínur betur en í annan tíma (reyndar “alveg síðan ég var á Hvanneyri”).
Með því að fara vestur og norður fyrir tindinn má finna uppgönguleið að dröngunum, en menn skyldu fara varlega á þessum slóðum, þar sem stórir steinar hanga þarna ýmist á sjálfum sér eða hver á öðrum og virðist lítið mega út af bera til að hluti af hlíðinni gangi til og bæti á skriðurnar undir, þótt nóg sé nú fyrir. Upp komust göngumenn þó og sýnir myndin af Stjána og tröllunum tveim svo ekki verður um villst að ýmislegt hefur verið hin steinrunnu tröll spunnið. Glöggir menn eiga að geta séð greinilegt andlit í syðri dranganum, en þar er tröllkarlinn líklega að gá til veðurs. Í nyrðri dranganum er auðvelt að greina augu, nef, munn og höku í skessunni þar sem hún horfir í átt að ljósmyndaranum.
Fyrir þremur árum fóru á tindinn feðgarnir Maríus Þór Jónasson og Snorri Maríusarson, ásamt Einari Stefánsyni, sem m.a. er þekktur fyrir að hafa verið einn þremenninganna, er klifu Mont Everest fyrstir Íslendinga á sínum tíma. Ekki er ólíklegt að einhverjar af “fjallageitunum” á bæjum sunnan við Hofsá hafi skokkað á tindinn, en sagnir af slíkum ferðum eru alla vega af skornum skammti. Þó kannast Flosi Ingólfsson á Flugustöðum við að hafa heyrt þess getið að tindurinn hafi verið genginn á árum áður.
Eins og sjá má af myndum, sem teknar voru í förinni, er útsýni ægifagurt til allra átta. Í vestri eru Jökulgilstindar, síðan Flugustaðatindar og norðar Tungutindar. Hrossatindar eru áberandi til norðvesturs og utar Flötufjöll, Tytjutindur, Staðarfjall, Goðatindur og Nóntindur, reki maður sig út með fjallgarðinum í Hofsdal norðanverðum. Norðar eru t.d. Sunnutindur og Þrándarjökull.
Sé horft til austurs má t.d. sjá Seltind, Nónhjúk og Svínabeinstind. Fjær og meira til suðurs er Snjótindur. Í suðri sést yfir í Lón og Vestra-Horn í ævintýrabirtu hins einstaka veðurs, sem var, meðan stór fjöldi landsmanna var að aka heim til sín eftir atburði “Vesalingsmannahelgarinnar”.
En bezt er að myndirnar tali sínu máli og þar sem þessi samantekt átti ekki að vera auglýsing fyrir sólarolíu, er rétt að taka fram að á hluta af myndunum bregður fyrir “skýi”, sem stafar af því að þegar áð var í skriðunni sunnan við Tvímenning, virðist linsan hafa orðið fyrir smá olíuágjöf.
Ekki þarf að taka fram að ánægjulegt væri að fá frásagnir um fleiri gönguferðir á tindinn og/eða nöfn þeirra, er þangað hafa komið.


Texti og myndir: BHG.

Sjá má myndir úr ferðinni með því að smella hér


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.14:00:00
Hiti:1,6 °C
Vindátt:S
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.14:00:00
Hiti: °C
Vindátt:
Vindhraði: m/sek
Vindhviður: m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.14:00:00
Hiti:1,0 °C
Vindátt:A
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is