Fréttir
17.08.2007 - Fundur með samgönguráðherra
 

Í gær áttu sveitarstjóri og oddviti Djúpavogshrepps mjög gagnlegan fund á Hótel Héraði með samgönguráðherra Kristjáni Möller. Á fundinum var m.a. farið yfir vegaframkvæmdir í sveitarfélaginu sem eru á 4 ára samgönguáætlun m.a. Hálsströnd í Hamarsfirði og botn Berufjarðar. Framkvæmdir við Hálsströndina hefjast á næsta ári og verður lokið árið 2009. Ekki er gert ráð fyrir þverun Hamarsfjarðar í þessum áfanga en malarkaflinn verður hinsvegar úr sögunni. Botn Berufjarðar er á áætlun 2010. Jarðgöng undir Lónsheiði voru einnig til umræðu á fundinum en sú framkvæmd var komin inn á langtímaáætlun sem náðist þó ekki að afgreiða fyrir þinglok síðastliðið vor. Þá má geta þess að stefnt er á að flýta framkvæmdum við lagningu bundins slitlags á Skriðdalsveginum frá Sandbrekku að Haugá með útboði á vori komanda, sú framkvæmd var á áætlun 2010. Með þessari framkvæmd verður malarkaflinn á þjóðveginum í Skriðdal loks úr sögunni eftir áratuga baráttu á vegabótum þar um.

Eðli málsins samkvæmt var þó mest rætt á fundinum þá gífurlegu samgöngubót sem samgönguyfirvöld hafa ákveðið að ráðist í þ.e. nýtt vegstæði og fullkominn veg um Öxi sem hefur verið mikið baráttumál sveitarstjórnar Djúpavogshrepps síðastliðin ár eins og kunnugt er.
Þessi ákvörðun ráðherra og samgönguyfirvalda mun hafa gríðarlega mikil og jákvæð áhrif hér inn í sveitarfélagið auk þess sem að hinn almenni vegfarandi mun auðvitað líka fagna því að hægt verði með tryggum hætti að ferðast um veginn allan ársins hring. Umferðin um Öxi hefur farið stigvaxandi ár frá ári og er ljóst að þeir vegfarendur sem vilja stytta sér leið á milli svæða hafa séð að það munar um þessa 61 km styttingu sem að Axarvegurinn býður upp á miðað við Breiðdalsheiði svo ekki sé nú talað um 71 km styttingu miðað við firði og Fagradal, sem vegfarendur hafa á stundum þurft að keyra aukreitis að vetrarlagi, þar sem að þjónusta á Axarveginum hefur verið afar takmörkuð, þrátt fyrir mikla eftirspurn.
Eins og sjá má að ofanrituðu verða að öllu óbreyttu miklar vegaframkvæmdir hér í sveitarfélaginu a.m.k. á næstu fjórum árum og því ber auðvitað að fagna sérstaklega, því ekki hefur slagurinn farið baráttulaust fram af hálfu þeirra er staðið hafa í eldlínunni.
Ljóst má einnig vera að hinn nýi ráðherra samgöngumála Kristján Möller er maður landsbyggðarinnar og vel að sér um stöðu einstakra byggða.

Til gamans fylgir hér með táknræn mynd sem undirritaður tók, þar sem sveitarstjóri og oddviti voru staddir í botni Berufjarðar á leið yfir Öxi á fyrrnefndan fund. Reis þá mikill regnbogi fjalla á milli með Axarveginn undir í miðju og er auðvitað ekki annað hægt en að lesa þetta himins tákn með jákvæðni fyrir þeirri framkvæmd sem þarna er á næsta leiti.
AS

 

 

 


 

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.19:00:00
Hiti:1,9 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:16 m/sek
Vindhviður:22 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.19:00:00
Hiti:1,4 °C
Vindátt:N
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.19:00:00
Hiti:1,4 °C
Vindátt:SV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is