Fréttir
25.08.2007 - Grafískur listamaður frá Djúpavogi
 
Eftirfarandi viðtal við Unnstein Guðjónsson (Umma), hér neðan við myndasyrpu, má sjá í Blaðinu í dag, en Ummi er a.m.k. þeim Djúpavogsbúum sem komnir eru undir miðjan aldur að góðu kunnur.

Það er ávallt gaman þegar einstaklingar taka sér á hendur óhefðbundin og krefjandi verkefni og ná jafn lagt og Ummi hefur nú þegar gert.

Ekki er fjarri að ætla að hið einstaka umhverfi Djúpavogs hafi mótað drenginn í æsku og ýtt undir listhneigð og sköpunargáfu sem hann hefur fengið útrás fyrir í mörgum stórmyndum sem birst hafa á hvíta tjaldinu á síðustu misserum.

Þegar skoðaðar eru þær stórmyndir sem Ummi hefur unnið að á grafíska sviðinu er hægt að sjá með berum augum hve frábærum árangri hann hefur nú þegar náð.

Heimasíðan óskar Unnsteini fyrir hönd íbúa Djúpavogs til hamingju með þennan glæsta árangur.
Að þessu tilefni fékk undirritaður nokkrar myndir af Umma frá því hann var pjakkur á Djúpavogi, myndirnar eru m.a. úr myndaalbúmi Önnu Sigrúnar Gunnlaugsdóttur, frænku Umma.

P.S. Hver veit nema að í framtíðinni verði sett upp stórt Ummasafn á Djúpavogi. AS
 
 
Listamaður og tölvunörd

Unnsteinn G uðjónsson, eða Ummi einsog hann er kallaður, hefur unnið að mörgum stærstu kvikmyndum samtímans sem grafískur hönnuður og tölvuteiknari. Í frítímanum sinnir hann tónlistinni og fiktar einnig við myndlist.

Ummi er borinn og barnfæddur á Djúpavogi. Þaðan fór hann suður til Reykjavíkur til að sinna tónlistarkölluninni.

„Ég og Jónas félagi minn vorum í hljómsveitinni Sólstrandargæjarnir og náðum töluverðum vinsældum með laginu Rangur maður. Ég fann þó fljótlega að ég væri á rangri hillu í lífinu og ákvað að drífa mig út í nám."

„Það eru nú orðin ellefu ár síðan ég flutti frá Íslandi. Ég lærði fyrst í Danmörku í eitt ár áður en ég kom til Englands. Þá fór ég í nám sem kallast computer visualisation and animation og er deild innan Bournemouth-háskólans. Þaðan útskrifaðist ég með BA-gráðu og fór að vinna hjá Double Negative og vann ýmsar tæknibrellur fyrir margar Hollywoodstórmyndir.

Þeirra á meðal eru The Chronicles of Riddick, Batman Begins, Doom, Harry Potter and the Goblet of Fire, og Harry Potter and the Order of the Phoenix.

Þetta er að mestu þessi týpíska 9-5 skrifstofuvinna, nema kannski þegar líður að skilafrestinum, þá fara flestar helgar í þetta líka. Maður vinnur allt í tölvu; gerir tölvulíkön sem maður lýsir og litar og setur inn í myndvinnsluna sem síðan endar á filmunni. Maður fær töluvert listrænt frelsi til að athafna sig, en auðvitað verður minn yfirmaður að samþykkja allt í samráði við leikstjóra hverrar myndar.

Til dæmis í síðustu Harry Pottermynd, þá voru yfir 1400 skot sem við þurftum að vinna að. Ég held að um 1000 þeirra hafi að lokum endað í sjálfri myndinni."

„Mér var svo boðin staða hjá Framstore CFC nýverið sem er stærsta fyrirtækið í London í þessum brellubransa. Það er því mikill heiður að komast hér að og í raun viðurkenning á mínum störfum.

Ég er núna að vinna að myndinni 10.000 B.C. sem er leikstýrt af Roland Emmerich, en hann gerði m.a. Independence Day og The Day After Tomorrow.

Fyrirtækið stefnir annars að því að keppa við þessi stóru bandarísku fyrirtæki sem flestir þekkja, Dreamworks og Pixar, sem hafa staðið að flestum stærstu tölvuteiknimyndunum hingað til. Við ætlum okkur að vera evrópska útgáfan, ef svo má segja.

Við erum með í bígerð The Tale of Despereaux, sem er fræg barna og unglingabók í Bandaríkjunum og er sú mynd væntanleg um jólin 2008. Það hefur alltaf verið draumurinn að vinna að slíkri teiknimynd. Því þó að tæknibrellurnar séu ágætar fær maður fyrst virkilega að njóta sín í svona verkefni og ég hlakka mikið til að byrja.

Annars reynir maður að nýta frítímann til að sinna hinum áhugamálunum, sem eru aðallega tónlistin. Einnig hef ég verið að dunda við myndlist, en það er meira svona fyrir mig sjálfan. Ég fór upphaflega í þetta nám vegna sköpunarþarfar, en þegar maður vinnur í svona tölvuumhverfi er ekki laust við að maður breytist smátt og smátt í tölvunörd. En maður þarf nú stundum aðeins að hvíla sig á tölvuskjánum og því ákvað ég að skella mér í smá frí til Ítalíu. Ég held að ég eigi það alveg inni," sagði Unnsteinn.

 

Ummi flottur í tauinu

Snemma byrjað að plokka strengina

Fyrsta sólóið

Ummi og Sóley Dögg

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.07:00:00
Hiti:1,3 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:18 m/sek
Vindhviður:24 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.07:00:00
Hiti:-0,1 °C
Vindátt:N
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:7 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.07:00:00
Hiti:0,0 °C
Vindátt:VSV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 29.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is