Fréttir
04.07.2016 - Rúllandi snjóbolti/7, Djúpivogur
 

Samtímalistasýningin Rúllandi snjóbolti/7, Djúpivogur opnaði í Bræðslunni sl. laugardag að viðstöddum um 200 manns.

Sýningin verður opin alla daga kl. 11:00-16:00 til 21. ágúst.

Aðgangur er ókeypis og við reiknum með að bæði íbúar Djúpavogshrepps, Austfirðingar og Íslendingar allir, sem og auðvitað erlendir ferðamenn, muni sækja sýninguna af kappi líkt og síðustu tvö sumur.

 

Opnunarhátíðin gekk að öllu leyti vel og ekki skemmdi fyrir að veðrið lék fyrir Djúpavogshrepp. Í anda Cittaslow bauð kvenfélagið Vaka upp á vægast sagt unaðslegt heimabakað rúgbrauð a la Hólmfríður með plokkfiski ofaná, og gaf Búlandstindur fiskinn. Langabúð sá um sölu áfengra veitinga og munnhörpuleikarinn Þorleifur Gaukur og bassaleikarinn Colescott Rubin léku fyrir gestina. Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri, May Lee og Annelie Musters frá Kínversk-evrópsku menningarmiðstöðinni og sérlegur gestur opnunarinnar, Katrín Jakobsdótttir fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, héldu tölur þar sem  samvinna, fjölbreytni í menningarframboði, frumkvöðlastarf og þakklæti var efst á baugi.

Djúpavogshreppur hlaut þrjár merkar gjafir sem voru afhentar formlega við opnunina. Þeir Sigurður Guðmundsson, Hrafnkell Sigurðsson og Þór Vigfússon gáfu Djúpavogshreppi hver um sig verk. Þór gaf ónefnt verk unnið á mdf frá árinu 2016 (2005) sem nýlega var sýnt á einkasýningu hans í gallerí i8. Sigurður gaf verkið Growing - Declining - Rotating sem sýnt er nú í fyrsta sinn utan Kína og samanstendur af 30 egg- og kúlulaga skúlptúrum úr postulíni sem unnir voru árið 2004. Hrafnkell gaf Djúpavogshreppi útilistaverkið Upprif sem hann vann með aðstoð heimamanna sumarið 2015 meðan hann var í listamannadvöl á Djúpvogi í tengslum við Rúllandi snjóbolta/6. Það er sveitarfélaginu mikill heiður að taka á móti þessum gjöfum.

   

 

Fyrsta verk sýningarinnar, sem gestir báru augum, var gjörningur eftir Magnús Pálsson. Að honum loknum var gestum boðið að ganga inn í sýningarrýmin og virða fyrir sér önnur verk sýningarinnar.

 

Djúpavogshreppur og Kínversk-evrópska menningarmiðstöðin vilja þakka gestum opnunarinnar innilega fyrir komuna og þeim ótalmörgu sem lögðu hönd á plóg þannig að sýningin gæti orðið að veruleika.

Uppbyggingarsjóður Austurlands og Mundriaan Fund styrkja Rúllandi snjóbolta/7, Djúpivogur. Við kunnum aðstandendum sjóðanna kærar þakkir fyrir stuðninginn.

Að lokum viljum við hvetja íbúa og gesti til að leggja leið sína í Bræðsluna og upplifa samtímalist í fremstu röð í Bræðslunni á Djúpavogi.

 

 Verk eftirtalinna 32 listmanna eru á Rúllandi snjóbolta/7, Djúpivogur:

 

Íslenskir listamenn

Berglind Ágústsdóttir / Dagrún Aðalsteinsdóttir / Ragnar Kjartansson /Sigurður Guðmundsson / Magnús Pálsson / Arna Óttarsdóttir / Hreinn Friðfinnsson / Kristján Guðmundsson / Þór Vigfússon / Hrafnkell Sigurðsson / Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar / Árni Páll Jóhannsson / Ragna Róbertsdóttir / Rúrí / Rúna Þorkelsdóttir / Hekla Dögg / Ólöf Nordal / Finnbogi Pétursson / Egill Snæbjörnsson / Elín Hansdóttir / Margrét Blöndal / Olga Bergmann

 

Listamenn við Rijksakademie, Amsterdam í Hollandi


Juliaan Andeweg (NL) / Josefin Arnell (SE/NL) / Mercedes Azpilicueta (IT/AR/NL) / Pauline Curnier Jardin (FR) / Marije Gertenbach (NL) / Tamar Harpaz (IL/US) / Christine Moldrickx (DE) / Matthijs Munnik (NL) / Eva Spierenburg (NL) / Robbert Weide (NL)

 

 

Nokkrar myndir frá opnuninni:
 

 

 

 

 

 


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.15:00:00
Hiti:2,1 °C
Vindátt:VSV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.15:00:00
Hiti:1,0 °C
Vindátt:SSA
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.15:00:00
Hiti:1,3 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is