Fréttir
05.11.2007 - Heiður þeim sem heiður ber
 
Húsfyllir var á árshátíð Grunnskóla Djúpavogs á Hótel Framtíð föstudaginn 2. nóv, en þá var heiðruð minning Jónasar Hallgrímssonar í tilefni þess að brátt eru liðin 200 ár frá fæðingu þessa mikla skáldjöfurs og vísindamanns.

Í ríflega eina klst. var samfelld dagskrá, ýmist beint úr verkum skáldsins, eða á mjög áhrifaríkan hátt unnið út frá þeim. Nú er það svo að það er eitt að fá hugmynd og annað að vinna úr henni. Það kom fram við setningu skemmtunarinnar að hugmyndin um að helga þessa árshátíð minningu Jónasar Hallgrímssonar vaknaði fyrir nokkuð löngu, en líklega hefur úrvinnslan ekki hafizt af fullum krafti fyrr en æfingar og undirbúningur hófust. Og þarna var svo sannarlega ekki kastað til höndum við vandaða og áheyrilega dagskrá.

Það hljóta að hafa verið stoltir foreldrar, aðstandendur og velunnarar skólans okkar, sem gengu út í veðurblíðuna eftir að hinni ágætu dagskrá lauk. Bar þar margt til. Umgjörðin var skemmtileg, allir nemendur tóku þátt í sjálfri sýningunni og greinilegt var að kennarar höfðu lagt sitt að mörkum svo vel mætti til takast.

Atriðin voru hvert öðru glæsilegra og það er í raun synd ef þessi sýning verður ekki endurtekin. Fullyrða má t.d. að þarna voru frambærileg atriði á ferð, hvort sem væri í tengslum við árlega upplestrarkeppni eða jafnvel fyrir beina sjónvarpsupptöku efnis sem ætlað væri börnum á öllum aldri. Fyrir okkur, sem lærðum mörg helztu verka Jónasar á sínum tíma, var það hrein upplifun að sjá efnistök. Enn ánægulegra er að vita að ýmsir nemendur lögðu gjörva hönd á plóg við frágang dagskrárinnar og sömdu jafnvel heilu atriðin (með hliðsjón af verkum þessa mikla meistara). Stærsti "gallinn" við sýninguna var etv. sá, að nægilegt magn hljóðnema var ekki til staðar og því fór stundum tími í að rétta tæki og tól á milli leikenda til að tryggja að framsetning þeirra kæmist sem bezt til skila en þó var greinilegt að þau handtök höfðu einnig verið æfð og gekk það því ótrúlega vel fyrir sig.

Erfitt er að taka út einstök atriði og vissulega hefði verið gaman að sjá sýninguna aftur í heild, því við það gætu augu áhorfenda opnazt enn betur fyrir ýmsu, sem menn náðu ekki alveg á stundinni. Ég ætla þó að leyfa mér að nefna eftirtalin atriði, sem voru ýmist áhrifamikil eða óborganleg:

"Föðurmissir",

"Stúlkan í turninum" í leikgerð Arons Daða (drengurinn er rímsnillingur),

"Sáuð þið hana systur mína" í nútíma rappbúningi (virkilega vel upp sett), (lít svo á að upplestur og klæðaburður Jens, Bergsveins og Þórunnar Amöndu, hafi verið hluti af þessu atriði)

"Ástarsaga" (um ferðalag Jónasar og Þóru), "presturinn Jóhann Atli" var virkilega virðulegur,

"Ég bið að heilsa", hljómfagur söngur Sonju, Dagbjartar og Söndru,

"Heiðlóukvæði", söngur, leikmynd, lóan og krummi eyrna- og augnakonfekt,

"Jonni Hall" (gítarleikur Arnars Jóns var virkilega góður og Aron Daði og Kjartan komu texta drengjanna vel til skila),

"Hann dó en lifir þó", skemmtileg leikgerð, sem hluti af elztu nemendunum flutti af innlifun - stjörnuhlutverk Matthíasar Tims Sigurðarsonar þó sýnu bezt af hendi leyst,

"Ísland farsælda frón", sviðsett jarðarför Jónasar, mjög áhrifamikil og ekki sízt fimmundarsöngurinn (Svavar tónlistarskólastjóri styrkti að vísu kvartettinn vel).

Leikstjórn var í höndum Berglindar Einarsdóttur, en allt starfsfólk skólans tók virkan þátt í því að sýningin varð eins góð og raun bar vitni því þau eru mörg handtökin sem fara fram á bak við tjöldin.

Í lokin get ég ekki látið hjá líða að minnast á hversu einlægir nemendurnir voru í leik sínum, framkomu og söng. Þegar menn eru að verða "fullorðið fólk" vill stundum brenna við þeir hinir elztu gangi að verkum með hálfgerðum hundshaus og í gegn skíni ólund þeirra að "vera að taka þátt í einhverju rugli", sem kennararnir segja þeim að gera. Þarna var slíku alls ekki til að dreifa og sýndi hópurinn í heild virkilega góð tilþrif og ekki sízt í hópi hinna elztu eru nemendur sem hafa góða framsögn og virðast vera leikarar af guðs náð.

Fyrirsögn þessarar umfjöllunar er "Heiður þeim. sem heiður ber".

Til að taka af öll tvímæli á hún að vísa til þess að það var full ástæða til og þakkarvert af Grunnskóla Djúpavogs að heiðra minningu Jónasar Hallgrímssonar. Einnig er ærin ástæða til að heiðra aðstandendur sýningar þeirrar, sem fjallað hefur verið um a.m.k. með því að þakka "pent" fyrir sig.

Djúpavogi 3. nóv. 2007;
BHG


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.17:00:00
Hiti:1,8 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:17 m/sek
Vindhviður:23 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.17:00:00
Hiti:1,5 °C
Vindátt:N
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:10 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.17:00:00
Hiti:2,4 °C
Vindátt:V
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:10 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is