Fréttir
02.05.2008 - Hammondhátíðin 2008 fer vel af stað
 
Hammondhátíðin 2008 var sett fimmtudaginn 1. maí á Hótel Framtíð á Djúpavogi. Forsprakki hennar frá upphafi hefur verið Svavar Sigurðsson og setti hann hátíðina að viðstöddu fjölmenni. Í upphafi vega var 1. kvöldið tileinkað heimamönnum en nú hefur "útbreiðslusvæðið" verið stækkað og flytjendur sóttir um stóran hluta Austfirðingafjórðungs. Það þýddi að mönnum var boðið upp á vaxandi hornfirzka sveit, ungliðasveit heimamanna og þétta blússveit úr Fjarðabyggð.

Salurinn á Hótel Framtíð var skemmtilega skreyttur af Silviu Hrómadko og sviðið hafði verið flutt í hinn enda hans m/v flestar uppákomur, sem þar hafa verið til þess. Kom það mjög vel út og gefur fyrirheit um ánægjuleg kvöld framundan.

Kvöldið hófst með Huldu Rós og Rökkurtríóinu frá Hornafirði. Hulda Rós söng, Sigurður faðir hennar Guðnason lék á gítar, Eymundur Ragnarsson sá um slagverkið og Bjartmar Ágústsson sló bassann, bæði þennan "venjulega" sem og forláta kontrabassa. Í fjarveru Heiðars Sigurðssonar sá hr. Hammond, Svavar Sigurðsson, um að þenja Drottninguna (fyrrum Hammond orgel Karls heitins Sighvatssonar).
Prógrammið hófst rólega hjá bandinu sem lék blús og blússkotin lög eftir Tom Waits, Janis Joplin o.fl. Þegar á leið færðist nokkurt fjör í leikinn með meira tempói og skemmtilegheitum og salurinn tók vel við sér. Bandið var þétt og lítið hægt að setja út á það. Hulda Rós er frábær söngkona sem svo sannarlega á framtíðina fyrir sér. Hún hefur gott vald á röddinni, skemmtilegan tón og hefur þetta "extra" sem þarf til að geta sungið blús. Það hefði þó verið gaman að heyra hana fara oftar upp á háu tónana, því hún getur það auðveldlega.
Sé litið til þess að ekki eru nema nokkrir mánuðir síðan þessi hljómsveit var stofnuð, er óhætt að segja að hún sé „bráðþroska“, því erfitt er að trúa aldrinum þegar þéttleikinn kemur í ljós, maður myndi frekar ætla að þarna væri hljómsveit með nokkurra ára reynslu á bakinu. En hljóðfæraleikararnir sem hana skipa eru ýmist mjög vaxandi eða orðnir þaulvanir.
Ef setja ætti út á eitthvað, væri það agavalið sem var kannski heldur mikið á rólegu nótunum, t.a.m. var uppklappið rólegur blússlagari. Engu að síður opnuðu Hulda Rós og Rökkurtríóið Hammondhátíðina með stæl og hituðu gesti upp fyrir það sem koma skyldi.

Átta ára afrakstur starfs Svavars að tónlistarmálum á Djúpavogi kom berlega í ljós, þegar ungliðasveitin „Friðpíka“ steig á svið, en hana skipa Aron Daði (söngur / bassi), Arnar Jón Guðmundsson, (gítar / trommur) og Kjartan Jónasson, (gítar / orgel). Eins og Svavar sagði, þegar hann kynnti þá félaga, hafa þeir komið fram á öllum hátíðunum þrem og getur hann verið stoltur af því að hafa vísað þeim piltum fram á veg á tónlistarsviðinu. Ljóst er að þeir hafa mikið til brunns að bera og var ánægjulegt að sjá að þeir eru orðnir færir á fleiri hljóðfæri en þau sem þeir hafa farið fingrum um undanfarin ár. Þannig er Aron Daði, sem hóf feril sinn sem saxófónleikari, orðinn góður söngvari með „örugga framkomu. Arnar Jón, sem hingað til hefur helzt barið húðir er skyndilega orðinn þrælgóður gítarleikari og Kjartan, þekktur sem bassaleikari, kann greinilega einnig að strjúka gítarstrengi og var auk þess ekki feiminn við sjálfa Drottninguna. Það má taka fram að Friðpíka var eina bandið sem flutti m.a. eigið efni þetta kvöld og var það bæði frumlegt og skemmtilegt. Virkilega gott framlag hjá þeim félögum.

Aðalnúmer kvöldsins átti að vera Blúsbrot Garðars Harðar og það gekk svo sannarlega eftir. Með Garðari í för í þetta sinn voru „prófessor“ Ágúst Ármann Þorláksson á Hammond, Þorleifur (sjálfur) Guðjónsson á bassa, Pétur (sankti) Hallgrímsson á trommur og (heilagur) Jón Hilmar Kárason á gítar. Auk þess að þenja raddböndin sló (meistari) Garðar fagmannlega strengi á gítar sínum. Þeir piltar koma allir úr Fjarðabyggð. Óþarfi er að orðlengja það að þeir félagar eru allir afburða hljóðfæraleikarar. Ágúst Ármann er mjög yfirvegaður á orgelið en fylgir þeim félögum vel eftir og tekur sólóin sín af kostgæfni, þegar honum er uppálagt, áreynslulaust en samt með „fílingi“. Pétur er mjög þéttur trommuleikari og enginn aukvisi þar á ferð, enda hefur maðurinn haldið takti hjá ýmsum þekktustu hljómsveitum sem hafa vaxið upp úr norðfirzku tónlistarlífi og gert það gott. Um hæfni Þorleifs á bassann efast enginn, enda eftirsóttur á landsvísu og auk þess er hann mjög lifandi á sviði. Þess utan blandar hann sér í sönginn og raddar áheyrilega í völdum köflum. Jón Hilmar hefur verið eitt bezt varðveitta leyndarmálið í hljómlistinni fram til þessa, en ljóst að hann er kominn á landsmælikvarða í gítarleik og er því frambærilegur á hvaða sviði sem er. Garðar er lítill eftirbátur hans á gítarinn og blús söngvari er hann af guðs náð og að mati annálsritara á hann þar heima í landsliðshópi. Ekki var þó flutningur þeirra félaga gallalaus, enda ekki atvinnumenn í þeim skilningi á ferð. Þeir vissu þó yfirleitt upp á hár, hvað þeir voru að gera í lögunum en gleymdu því stundum að í upphafi skyldi endinn skoða því í einstaka tilvikum bar á óöryggi þegar klára átti lögin. Hlé, sem þeir félagar tóku á flutningi sínum, virtist gera þeim gott, því þeir mættu tvíefldir til leiks og fóru þá hreinlega á kostum. Ljóst er að Halldór Bragason og félagar þurfa að hafa sig alla við í kvöld svo þeir verði ekki á endanum upphitunarsveit fyrir þá Blúsbrotsfélaga, en líklega eru nú nokkur ár í það.

Vert er að hrósa hljóðmönnum, þeim Jóni Ægi og Magnúsi Kristjánssyni fyrir þeirra framlag, því sjaldan hefur „sándið“ borizt betur um húsakynnin á Hótel Framtíð.

Í kvöld, föstudaginn 2. maí, mun Riot band Halldórs Bragasonar stíga á stokk en það inniheldur sannkallað landslið í hljóðfæraleik; Þóri Baldursson, Ásgeir Óskarsson, Jón Rafnsson og Björn Thoroddsen, auk Dóra Braga. Ekki minnkar standardinn á laugardaginn þegar Stórsveit Samma þenur lúðra í orðsins fyllstu merkingu. Heyrzt hefur að nú þegar sé von á skipulögðum sætaferðum úr nágrannabyggðarlögum, enda hefur þessi 18 manna sveit getið sér gott orð fyrir líflega og skemmtilega framkomu.

Endahnúturinn verður síðan á kristilegum nótum í Djúpavogskirkju, þar sem Svavar stýrir kór sem hann hefur æft á undanförnum árum og sett saman prógamm sérstaklega fyrir þessa hátíð. Auk þess syngur Kristjana Stefánsdóttir gullsöng við undirleik Tregasveitar sinnar. Ennfremur stígur Berglind Einarsdóttir á stokk og mun halda uppi heiðri heimamanna, ásamt Svavari og kórnum.

Það eru svo sannarlega áhugaverðir dagar framundan á þriðju Hammondhátíð Djúpavogs og sérhver á að geta fundið eitthvað við sitt hæfi fyrir utan þá sem ætla að mæta á öll kvöldin eins og systurnar Ingimundardætur.
 
Myndir frá kvöldinu má skoða með því að smella hér

Dagskrána í heild og frekar upplýsingar er að finna á www.djupivogur.is/hammond


Texti: ÓB / BHG
Myndir: BHG


Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.08:00:00
Hiti:0,8 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:22 m/sek
Vindhviður:28 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.08:00:00
Hiti:1,0 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:6 m/sek
Vindhviður:11 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.08:00:00
Hiti:0,1 °C
Vindátt:VSV
Vindhraði:5 m/sek
Vindhviður:9 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 28.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is