Fréttir
05.05.2008 - Fjórði í Hammond - Sunnudagur
 
Jæja, þá er nú Hammond-hátíðin búin þetta árið.

Henni lauk með tvennum tónleikum og ríflega það í Djúpavogskirkju sunnudaginn 4. maí og að sjálfsögðu var hljóðfærið, sem hátíðin er kennd við, í forgrunni og setti sterkan svip á athöfnina frá upphafi til enda. Gestir voru fjölmargir og munu hafa losað 100, þannig að þetta varð næst bezt sótti viðburður hátíðarinnar.
Kór Djúpavogskirkju hafði í vetur og vor æft mjög áheyrilega dagskrá undir stjórn Svavars Sigurðssonar, sem einnig lék undir, en auk þess nutu flytjendur í nokkrum lögum undirleiks Kristjáns Marteinssonar (úr Stórsveit Samma / sjá umfj. um kvöld 3), sem kom til skjalanna með stuttum fyrirvara og leysti hlutverk sitt af hendi með miklum ágætum.
Kórinn er sífellt vaxandi og þó að karlaraddirnar væru veikar í tilfellum m/v raddir sönggyðjanna, hljómaði flest mjög vel og glaðlegt yfirbragð flytjenda varð til þess að „salurinn komst í stuð“. Undir lokin voru allir viðstaddir staðnir upp og klöppuðu í takt, þegar Svavar hafði sett upp hálfgerða sýningu á því hvernig Hammondinn var nýttur í kirkjum víða í Bandaríkjunum til að skapa þá stemmingu, sem m.a. má sjá í ýmsum kvikmyndum fyrri ára.
Eftir hlé, kaffi og kökur buðu Svavar og Berglind Einarsdóttir upp á eitt þekktasta verk úr smiðju J.S. Bach, „Air on a G string“ og var framganga þeirra mjög áheyrileg eins og við mátti búast. Berglind er helzta tromp heimamanna á sviði söngmennta og kemur allt of sjaldan fram sem einsöngvari, en auk þess að syngja eins og engill er framkoma hennar og virðuleiki á sviði henni mjög til sóma.
Ekki má láta hjá líða að nefna frumlegar kynningar Svavars á efni því sem hann kom að sem stjórnandi, þótt hann virkaði þreyttur og stundum eins og réttur andi væri ekki yfir honum.
Að þessu búnu kynnti Svavar til leiks Kristjönu Stefánsdóttur og Tregasveit hennar, en hana skipa; Agnar Már Magnússon á hljómborð, Scott McLemore á trommur og Ómar Guðjónsson á gítar (en hann er einnig ein aðal skrautfjöðrin í Stórsveit Samma). Skemmst er frá að segja að þarna voru frábærir tónlistarmenn á ferð, enda við hæfi, þar sem Kristjana sjálf er enginn aukvisi og hefur nú fest sig í sessi sem ein af drottningum Íslands á sviði jazz- og blústónlistar, en hún gerði einkum blúsnum skil í þetta sinn. M.a. flutti hún lög af væntanlegum hljómdiski sínum og hafði með í farteskinu tvö eigin lög - virkilega góð - sem hún frumflutti í Djúpavogskirkju. Fyrir okkur Djúpavogsbúa var það sérstök ánægja, þegar Kristjana kallaði á svið með sér hálfgerðan heimamann, Birnu Sif Snæbjörnsdóttur, en hún hefur m.a. getið sér gott orð, sem einn af þeim flytjendum, er urðu hvað langlífastir í Bandinu hans Bubba. Sungu þær saman lag Gershwin, „Summertime“ og gerðu það báðar virkilega vel. Er greinilegt að Birna Sif á framtíð fyrir sér á sviði sönglistar.
Ég verð að geta þess í lokin, að þegar Kristjana kynnti eitt laga sinna greindi hún á áhrifamikinn hátt frá kynnum sínum af Karli heitnum Sighvatssyni og þeirri tilviljun að hún skyldi standa á þessari stundu við hliðina á þekktasta hljóðfæri þess tónlistarmanns, er hún hóf feril sinn hjá.
 
Myndir frá tónleikunum má sjá hér.
 


Hugleiðingar í lokin.

Við hjá heimasíðu Djúpavogs höfum reynt okkar bezta til að gera hátíðinni skil í máli og myndum og þótt öruggt sé að allir verði ekki sammála umfjöllun okkar reynum við að bera höfuðið hátt og teljum að ekkert sveitarfélag af okkar stærðargráðu „norðan Alpafjalla“ geti sýnt fram á sambærilegt magn af myndum og texta v/ bæjarhátíðar sinnar. Þar er hlutur Ólafs Björnssonar mestur og á hann heiður skilinn fyrir það hversu síðan er „virk“ og rétt að upplýsa að við fáum mjög sterk (og nánast alltaf) jákvæð viðbrögð við þessum ágæta miðli, ekki sízt frá brottfluttum Djúpavogsmönnum.

Tíðarfarið var hátíðinni vissulega ekki hagstætt þetta árið og hefur mjög líklega dregið úr aðsókn. Hins vegar er það nú svo að allt of fáir virðast nenna að leggja land undir fót, þegar boðið er hér upp á slíkt eyrnakonfekt sem raun ber vitni. Reyndar verður að viðurkennast að við heimamenn erum að sama skapi að útnárast allt of mikið hér heima, þegar nágrannar okkar bjóða upp á sambærilegt. Helzt er að menn hverfi í „bræðslufnykinn á Borgarfirði“ og „harmonikkuhopp í Staðarborg“, þegar svo ber undir.

Um þátt fjölmiðla ber að segja sem minnst og líklegt að kostnaður sem lagður er í auglýsingar, skili sér engan veginn. Auk þess er ekki að sjá að fjölmiðillinn sem nýtur mestra tekna vegna auglýsinga, skili miklu til baka með fréttaflutningi eða annarri umfjöllun, þótt vissulega hafi verið á því undantekningar.

Undirritaður hefur undanfarin 3 ár orðið vitni að öllum atburðum Hammond-hátíðanna á Djúpavogi (utan þess að ég missti af tónleikum í Löngubúð í fyrra þar sem ég var að sækja Andreu Gylfa, Jakob Frímann o.fl. í flug). Öll árin hefur hátíðinni lokið í Djúpavogskirkju og er ég þeirrar skoðunar að ætíð hafi sá dagur orðið hápunktur hennar - ekki alltaf vegna þess að þar hafi verið „beztu númerin á ferð“, heldur vegna þeirrar stemmingar sem húsið skapar og sökum hljómburðarins sem margir flytjendur róma. Ég fullyrði að svo var einnig í gær og ég varð hrærður og bljúgur í hjarta og þakklátur fyrir þá framsýni, hugrekki og dugnað sem Svavar og hans tryggustu aðstoðarmenn (Hlíf og Þórir) hafa sýnt alveg frá upphafi. Sá dugnaður hefur orðið ýmsum heimamönnum o.fl. góð fyrirmynd og hafa margir þeirra sótt hátíðina frá upphafi. Nefni ég þar sérstaklega þær Vegamótasystur og maka þeirra. Ýmis fyrirtæki og einstaklingar hafa stutt hátíðina fjárhagslega, enda yrði fljótt um hana ella. Ég verð samt einnig að nefna að enn eru allt of margir sem virðast halda að það sé nánast formsatriði að komast fjárhagslega „í gegnum dæmið“ og sýna að mínu mati ekki nægan skilning á því að menn verða að mæta og greiða sig inn með bros á vör. Það gera reyndar margir sem betur fer og þeim fer greinilega fjölgandi. Eru öllum, sem komu að hátíðinni hér með færðar þakkir fyrir hönd sveitarfélagsins, en það leyfi ég mér að gera á grundvelli þess að þetta er „bæjarhátíðin okkar“.

Menn gætu spurt; Verður „hún“ að ári? Það hefi ég nú þegar gjört. Við mig er fullyrt að svo verði og mér skilst að strax sé byrjað að leggja línur með flytjendur o.fl. Það er vissulega tilhlökkunarefni og þá er bara að bíða og sjá ...................


Texti og myndir: BHG

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.18:00:00
Hiti:0,9 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.18:00:00
Hiti:1,6 °C
Vindátt:SA
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.18:00:00
Hiti:1,7 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is