Tyrkjaránið


Botn Berufjarðar, alls munu Tyrkirnir hafa rænt 62 mönnum af Berufjarðarströnd

 

Árið 1626 komu tvö ensk varnarskip úr hafi og lögðust inn á Djúpavog. Ætluðu þau að taka danskt kaupfar, sem þar lá fyrir, en hættu við það, er þau sáu danska konungspassann. Höfðu þessi skip áður tekið fimm ræningjaskip og flutt til Englands.
 

Sumarið eftir, árið 1627, koma Tyrkir. Það er miðvikudagurinn 4. júní, sem þeir taka land við Hvalnes. Fóru þeir ómildum höndum um eigur fólksins á Hvalnesi, sem allt var statt í seli meðan ræningjarnir létu greipar sópa, en þeir fundu ekki fólkið og héldu því ferð sinni áfram austur á bóginn á tveimur skipum. Um aftureldingu á föstudagsmorgun sáust skipin við Papey. Var þá hið hagstæðasta leiði inn á Djúpavog og veður svo háttað, að bjart var hið neðra, en þoka miðhlíðis. Sigldu skipin hraðbyri inn í mynni Berufjarðar. Á þessari leið urðu þeir varir við danskan bát úr Djúpavogskaupstað, er lá við línur sínar og voru þar á fjórir menn. Þennan bát hremmdu þeir óðar með allri áhöfn og héldu síðan inn fjörðinn þar til þeir komu á móts við Berunes. Þar vörpuðu þeir akkerum.

 

Var þá sól um það bil að rísa. Jafnskjótt og akkeri voru botnföst, voru þrír bátar mannaðir. Réru víkingar sem mest þeir máttu suður yfir fjörðinn að kaupstaðnum í Djúpavogi, gegnt Berunesi. Þar var fyrir danskt kaupskip, er komið hafði til hafnar fyrir nokkru, og voru skipverjar í fasta svefni svo árla morguns. Einn bátanna lagðist samstundis að skipinu og vissu þeir, sem á því voru, ekki fyrr til en víkingarnir ruddust inn á þá með alvæpni. Fengu þeir engum vörnum við komið og voru í bönd reyrðir, áður en þeir áttuðu sig á því, hvað á seyði var. Hinir bátarnir tveir renndu hljóðlega upp í flæðarmálið, annar sunnan hafnarinnar, en hinn norðan. Hlupu víkingarnir á land upp sem fætur toguðu og umkringdu kaupmannshúsin og búðirnar, svo að engum, sem þar var inni,skyldi auðnast að komast undan á flótta; -flykktust síðan viðstöðulaust inn með brugðna branda. Hér fór sem úti á skipinu. Fólkið, sem vaknaði við þessa atburði af værum blundi, vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið og var hver gripinn, þar sem hann var kominn, sumir naktir í rekkjum sínum, aðrir á hlaupum um húsin. Var allt fólkið fært í fjötrar á svipstundu, dregið niður í fjöru og flutt á tveimur bátum út í víkingaskipin. Voru þeir fimmtán, sem fangaðir voru á Djúpavogi þennan morgun, allt danskt fólk, nema einn.

 

Eftir að ræningjarnir höfðu fullvissað sig um að hafa náð öllu fólki á verslunarstaðnum Djúpavogi lögðu þeir af stað inn með Hálsum, 30 - 40 í hóp. Komu þeir fyrst að bænum Búlandsnesi með miklum hrópum og háreysti. Bóndi, er hét Guttormur Hallsson, sonur séra Halls í Kirkjubæ Högnasonar, maður í góðum metum og vel megandi, var um þetta leyti að flytjast búferlum að Búlandsnesi. Voru hjá honum hjú hans sex eða sjö og eru tilgreindar þrjár kerlingar, ein stúlka og smalapiltur, Jón Ásbjarnarson að nafni. Þar voru einnig þessa nótt sex aðkomumenn, er þangað voru komnir úr öðrum sveitum til þess að leita sér bjargar, því að vetur hinn næsti á undan hafði verið harður og vorið strítt, svo að víða var búsvelta. Allt þetta fólk gripu víkingarnir ásamt hjónunum, sem bjuggu í Búlandsneshjáleigu. Bundu þeir hendur karlmanna á bak aftur og ráku síðan tveir úr þeirra flokki hópinn á undan sér til Djúpavogs. Þar voru fangarnir vistaðir um sinn í danska kaupskipinu á legunni.

 

Þessu næst héldu víkingarnir inn með Hamarsfirði og að prestssetrinu Hálsi. En þar fundu þeir engan heima á staðnum, því að presturinn, séra Jón Þorvarðarson, var í seli ásamt konu sinni, Katrínu Þorláksdóttur, heimamönnum öllum og þremur mönnum frá Hálshjáleigu. Ekki var þetta þó fólkinu til bjargar; ræningjarnir fundu selið og komu þar að fólkinu óvöru, svo að enginn komst undan, nema einn piltur, Jón Ásgrímsson. Hann tík á rás, er hann varð ófriðarins var, og átti fótum sínum fjör að launa. Hljóp allt hvað af tók norður yfir hálsa og síðan inn með öllum Berufirði. Það voru 11 menn, sem fangaðir voru í selinu. Þennan hóp ráku víkingarnir á undan sér í þá átt, sem pilturinn hafði leitað.

 

Þegar yfir hálsinn kom héldu þeir sem hann inn með Berufirði og léttu ekki fyrr ferðinni, en þeir komu að kirkjustaðnum við fjarðarbotn. Voru þau séra Jón Þorvarðarson og maddaman þá að þrotum komin og varð þeim ekki lengra komið, þótt hart væri að gengið, enda bæði öldruð orðin. Prestlaust virðist hafa verið í Berufirði um þessar mundir og bjó þar roskinn bóndi, Magnús Þórðarson að nafni. Hann var með sonum sínum tveimur og einum vinnumanni við sjó úti á Berufjarðarströnd, en fólk, sem heima hafði verið á bænum, var á bak og burt. er víkingarnir komu. Hafði það lagt á flótta norður yfir Berufjarðarskarð til Breiðdals, ásamt Jóni Ásgrímssyni frá Hálsi, er þangað hafði komið og borið því hersöguna, og öðru fólki, sem hann hafði varað við hættunni á leið sinni. Víkingarnir herjuðu nú á hvern bæinn á fætur öðrum norður alla Berufjarðarströnd. Létu þeir fólk illa, drápu og limlestu.

Alls munu þeir hafa rænt 62 mönnum af Berufjarðarströnd. Þá tóku þeir til fanga 13 manns frá Hamri í Hamarsfirði. Létu þeir vera sitt síðasta verk að ræna kirkjuna á Hálsi, áður en þeir skildu við Djúpavog. Eftir þessa válegu atburði, í kjölfar erfiðs árferðis og mikillar fátæktar, var hljótt við Berufjörð. Sums staðar stóðu bæir auðir, en búpeningur gekk í haga. Það var eina lífsmarkið sem sást. Sorg og söknuður hafði yfirbugað þá, sem eftir stóðu.
Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.16:00:00
Hiti:1,4 °C
Vindátt:VNV
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.16:00:00
Hiti:1,2 °C
Vindátt:SSV
Vindhraði:2 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.16:00:00
Hiti:1,2 °C
Vindátt:A
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:4 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 19.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is