Í Eyfreyjunesvík - Búlandstindur í baksýn
Hér til vinstri gefur að líta ýmislegt tengt náttúru í Djúpavogshreppi, m.a. lýsingu á fjörðunum þremur í Djúpavogshreppi og einnig Papey. Búlandstindi er að sjálfsögðu gerð góð skil en mest af upplýsingum, enn sem komið er, má finna undir Búlandsnesi. Því höfum við skipt upp í nokkur svæði og sett inn helstu kennileiti með myndum. Ætlunin er síðan að setja inn helstu kennileiti fjarðanna þriggja þegar fram líða stundir. Þetta vefsvæði verður því í stöðugri vinnslu næstu árin og hvetjum við alla til að kíkja hér við með vissu millibili.
Hér að neðan er lýsing Ingimars Sveinssonar á Djúpavogi og nágrenni hans, úr bókinni Djúpivogur - 400 ár við voginn sem kom út árið 1989:
Berufjörður er einn af syðstu Austfjörðunum. Sunnan við hann eru Hamarsfjörður og Álftafjörður, sem báðir eru að nokkru leyti lokaðir út til hafsins af skerjum og sandeyrum. Inn í þá firði er ekki greið sigling. Djúpivogur er því syðsta höfn hinna eiginlegu Austfjarða. Djúpivogur stendur yst við Berufjörð sunnanverðan. Vogurinn, sem þorpið dregur nafn af, skerst djúpt inn í landið. Norðvestan við voginn er Fiskimannatangi. Þar innaf Ytri-Gleðivík (stundum nefnd Gleiðavík), Svalbarðstangi, og Innri-Gleðivík. Háuklettar og Æðarsteinn eru norðar og vestar. Tangar flúðir og sker skýla höfninni í norðlægum áttum. Utan og austan við voginn eru víkur og tangar. Þar nær Svartasker lengst fram og skýlir fyrir austlægum áttum. Höfnin er góð frá náttúrunnar hendi, en innsigling nokkuð þröng vegna blindskerja.
Byggðin á Djúpavogi er einkum sunnan og vestan við voginn, dreifð um dældir, hæðir brekkur milli hárra klettagarða, sem liggja frá norðaustri til suðvesturs. Skipta þessir klettar þorpinu í nokkur hverfi. Byggðin er dreifð og erfitt að fá nokkra heildarsýn yfir hana nema úr lofti. Þó er þarna margir góðir útsýnisstaðir, s.s. Bóndavarða, Brenniklettur, Sólhólsklettar og Borgargarðsklettur. Útsýni er með mörgum áberandi tindum og fjöllum. Þar er Búlandstindur einna fegurstur og nafnkenndastur, hár og brattur píramídi við sunnanverðan Berufjörð. Inn til landsins sér í mynni langra, djúpra dala, sem margir hverjir eru kjarri vaxnir og gróðursælir. Það er mál kunnugra að gróður og skógarkjarr hafi aukist verulega á síðustu árum í þessum dölum. Hefur vetrarbeit og eldiviðartekja lagst af, enda landið torfarið. Út til hafsins blasa við eyjar og sker eins og perlur á bandi. Dýrasta perlan í þeirri röð er Papey, í suðaustur frá Djúpavogi, dularfull og torsótt, handan hinna straumþungu, úfnu Papeyjarála.
Eitt af því sem athygli vekur í umhverfi Djúpavogs eru hinir fjölmörgu, sérkennilegu kambar, háar og þunnar klettabríkur. Þetta er berggangar, löngu storknuð hraunleðja sem fyllti gossprungur í hrikalegum eldsumbrotum fyrir milljónum ára. Ísaldarjökullinn náði ekki til að jafna þessa kamba við jörðu. Langflestir hafa þeir sömu stefnu, frá norðaustri til suðvesturs.
Allmikið láglendi er við Djúpavog, þar sem skiptast á klapparhryggir, melar, mólendi og mýrar. Mýrarnar eru víðlendar og voru áður sumstaðar mjög blautar, svo kallaðar blár, en blárnar hafa að nokkru leyti verið ræstar fram og þurrkaðar. Landið norðvestan Djúpavogs er nefnt Norðurland, sunnan og vestan er Suðurland, en Útland sunnan og austan við byggðina. Skilin milli Suðurlands og Útlands eru um Fýluvog eða Fúlavog, sem er forn höfn og verslunarstaður, en hefur lokast af sandburði og gras vaxið yfir innsiglinguna. Umhverfis Útlandið að sunnan og austan eru sandar og eyjar. Helstu eyjarnar eru Grunnasundsey, Úlfsey, Hvaley, Kálkur, Sandey og Hrísey.
Eyjarnar eru nú allar landfastar. Mikill sandur hefur borist upp í eyjasundin og fyllt þau. Sækir hann einnig á að eyða jarðvegi og gróðri úr eyjunum. Má segja að flestar eyjarnar séu orðnar hluti af Útlandinu, en fram yfir miðja þessa (innsk. 20. öld) öld voru djúp sund fyrir ofan margar þeirra og farið um á bátum. Þvottáreyjar, stærst þeirra Eskilsey, eru fyrir mynni Hamarsfjarðar og tilheyra Djúpavogi. Enn er nokkuð djúpt sund milli þeirra eyja og meginlandsins.
Búlandstindur í sólargleði
|