• Forsíða |
• Stjórnsýsla |
• Djúpivogur |
• Cittaslow |
- Uppskriftir |
- Stuðningsaðilar Cittaslow |
• Náttúra |
• Myndasafn |
• Innsent efni |
• Laus störf |
• Tenglar |
• Hafa samband |
• English |
• Endurvinnslukort |
Saga Cittaslow Undir lok síðustu aldar, sammæltust fjórir bæjarstjórar á Ítalíu um að nóg væri komið af hnattvæðingu og hraðaáráttu nútímans. Þeirra tilburða að vilja steypa ólíka menningarheima umhugsunarlaust í sama mót og skeyta lítið áhrif þess á samfélög og umhverfi. Töldu þeir nauðsynlegt að sett væri fram stefna sem legði áherslu á hið gagnstæða; þar sem virðing fyrir fólki, staðbundinni menningu og umhverfi væri í heiðri höfð. Með þessa sýn og hugmyndafræði SlowFood-samtakanna að leiðarljósi varð Cittaslow-hreyfingunni hleypt af stokkunum árið 1999. Síðan þá hafa margir fundið samhljóm með Cittaslow-hreyfingunni. Henni hefur vaxið hratt fiskur um hrygg og í apríl árið 2013 höfðu 176 bæir og sveitarfélög í 27 löndum víðsvegar um heiminn gerst aðilar að hreyfingunni. Í stærra samhengi Cittaslow-hreyfingin er afsprengi „Hæglætishreyfingarinnar“ (The Slow Movement) sem rekja má allt aftur til ársins 1986, þegar blaðamaðurinn Carlo Petrini mótmælti opnun veitingastaðar McDonald's skyndibitakeðjunnar á hinu fræga Piazza di Spagna-torgi í Róm, þeim fyrsta á gjörvalli Ítalíu. Síðan þá hefur Hæglætishreyfingin með SlowFood-samtökin í fylkingarbrjósti unnið að því að upphefja manneskjuleg gildi og staðbundna menningu með virðingu og vitund fyrir umhverfi og uppruna í öndvegi. Á undanförnum árum hefur „hæglætis“-hugmyndafræðinni vaxið ásmegin og hefur hún verið heimfærð á fjölmörg svið samfélagsins, en auk Cittaslow má t.d. nefna Slow Living, Slow Travel, Slow Design & Slow Fashion.
Í víðasta skilningi er markmið Cittaslow-hreyfingarinnar að auka lífsgæði og ánægju fólks með því að veita hnattvæðingu, einsleitni og hraðaáráttu í borgum og bæjum nútímans viðnám og heiðra þess í stað sérstöðu, vitund og sjálfbærni. Til að mæta þessu markmiði leggja stefnumið Cittaslow áherslu á verndun náttúru og menningarminja, fegrun umhverfis, umhverfisgæði, notkun á nýjustu tækni í þágu samfélagsins, eflingu staðbundinnar matarmenningar og framleiðslu, öryggi og aðgengi, sem og gestrisni, kurteisi og vinsamlegt viðmót. 7 flokkar - 72 viðmið Með því að gerast aðili að Cittaslow-hreyfingunni skuldbindur bæjarfélag/sveitarfélag sig til að vinna að 72 viðmiðum sem sett eru fram í eftirfarandi sjö flokkum: - Orka og umhverfimál
Cittaslow til Djúpavogshrepps - Af hverju? Búlandstindur, Búlandsnes og Berufjörður. Allt ofantalið á það sameiginlegt að endurspegla Djúpavogshrepp með einum eða öðrum hætti. Endurspegla sérstöðu sem aðeins finnst á einum stað í víðri veröld, því staðreyndin er jú sú að í þessum heimi er aðeins til einn Djúpavogshreppur. Og í sérstöðunni felast tækifæri. Með aðild sinni að Cittaslow-hreyfingunni vill Djúpavogshreppur kappkosta að nýta tækifærin. Hefja náttúru og staðbundna menningu til vegs og virðingar um leið og íbúum og gestum eru skapaðir möguleikar á dvöl í hreinu, öruggu og uppbyggilegu umhverfi þar sem samkennd, samvinna og sanngirni er í heiðri höfð. Djúpavogshreppur og Cittaslow Þann 13. apríl 2013 var umsókn Djúpavogshrepps um inngöngu í Cittaslow-hreyfinguna formlega samþykkt á fundi Cittaslow International í Kristinestad í Finnlandi. Aðild sveitarfélagsins að hreyfingunni var í burðarliðnum um nokkuð langt skeið en líta má á hana sem rökrétt framhald þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í sveitarfélaginu um árabil. Í Aðalskipulagi Djúpavogshrepps 2008 - 2020 er að finna mjög metnaðarfulla stefnu um verndun náttúru og menningarminja. Lögð er áhersla á sérstöðu náttúrunnar, t.d. í gegnum verkefnið birds.is, friðlýsingum á náttúru- og menningarminjum á fjölmörgum svæðum sbr. Teigarhorn. Flokkun og endurvinnsla sorps hefur verið innleidd ásamt því sem stór skref hafa verið tekin til fegrunar umhverfis. Leitað hefur verið leiða til að finna gömlum byggingum nýtt hlutverk. Lögð er áhersla á að tryggja fjölbreytni í atvinnumálum þar sem lítil og meðalstór fyrirtæki með vistvænan atvinnurekstur eru sérstaklega boðin velkomin. Skólar á svæðinu starfa undir merkjum Grænfánans, og kaffi- og veitingahús leggja sig fram um að bjóða upp á staðbundið hráefni og framreiðslu. Auk þess að horfa til lífræns landbúnaðar og afurða úr sveitum Djúpavogshrepps er sérstaklega lögð áhersla á sjávartengdar afurðir og strandmenningu m.a. með það fyrir augum að koma sögu sjávarútvegs og útgerðar á svæðinu á framfæri í máli og myndum, t.d. á hafnarsvæði Djúpavogs. Þá er hvatt til íþróttaþátttöku og félagslegra samskipta með margvíslegum uppákomum, samkomu- og mótahaldi, svo fátt eitt sé talið. Þegar valið stendur á milli einsleitni eða fjölbreytni, hnattvæðingar eða sérstöðu, hraða eða vitundar, þá hefur Djúpavogshreppur markað sér stefnu til framtíðar.
Norðurlandanet Cittaslow Djúpavogshreppur er hluti af norðurlandaneti Cittaslow, en Cittaslow sveitarfélög finnast á öllum Norðurlöndunum eins og sjá má á kortinu hér að neðan. Fésbókarsíða Norðurlandanets Cittaslow Bæklingur Norðurlandanets Cittaslow
Cittaslow International Vefsíða Cittaslow International |
Veðurstöðin Papey kl.04:00:00 | |
Hiti: | -0,7 °C |
Vindátt: | VNV |
Vindhraði: | 18 m/sek |
Vindhviður: | 26 m/sek |
Veðurstöðin Teigarhorn kl.04:00:00 | |
Hiti: | -0,9 °C |
Vindátt: | NNV |
Vindhraði: | 9 m/sek |
Vindhviður: | 18 m/sek |
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.04:00:00 | |
Hiti: | -1,2 °C |
Vindátt: | V |
Vindhraði: | 18 m/sek |
Vindhviður: | 30 m/sek |
Flóð og Fjara: 07.12.2024 |
| |||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||||
|