Kristín Sigfinnsdóttir - hugleiðingar um Hans Jónatan

 

(Smellið hér til að skoða hugleiðingarnar á .pdf formi)

 

Hugleiðingar fluttar í Löngubúð á Djúpavogi, 11. október 2014, í útgáfuteiti vegna bókar Gísla Pálssonar um Hans Jónatan.


Góðir tilheyrendur.


Ég heiti Kristín Sigfinnsdóttir, og er 6. ættliður frá Hans Jónatan, þeim er hingað barst á tímum Napoleonsstyrjalda sem „hafrekið sprek á annarlegri strönd“, svo vitnað sé orðrétt til ljóðsins Í vorþeynum, eftir Jón Helgason, prófessor og fræðimann við Árnasafn forðum.

Nú hefur annar ágætur prófessor, Gísli Pálsson, mannfræðingur, safnað saman sprekum, - í yfirfærðri merkingu, - sem sé heimildum um þennan lítt þekkta barningsmann tilverunnar, - raðað saman brotum, tengt við umbrotatíma, allt til nútímans, - beitt innsæi og gert af fræðirit og ævisögu; - mikla bókarperlu. Innilegar þakkir okkar allra.

Margt kom í leitirnar þann tíma sem Gísli vann að bókinni, m.a. undir lokin, heimildir um meintan föður Jónatans, - Danann Hans Gram, fæddan 1754, dáinn 1803. Hann var ritari í þjónustu landstjórans á St. Croix í Karíbahafi um þrítugsaldurinn, en settist síðar að í Boston, og varð þekktur og virtur listamaður á sviði sígildrar tónlistar í Bandaríkjunum. Þarlendir fræðimenn hafa fjallað um þann þátt. – Hann var jafnframt bókmenntamaður; þýddi á æskudögum leikrit úr frönsku, sem vel þótti hæfa á samtíma þeim, í Danmörku, sem kenndur er við Struense, - þýskan konungsráðgjafa, sem þar ásældist völd, - með örlagaríkum afleiðingum.

Á síðari hluta ævinnar, en hann andaðist aðeins tæplega fimmtugur, er hans oft getið í sambandi við þýðingar og ljóðagerð. Í minningargrein er ritað að hann hafi verið tengdur einhverjum fremstu ættum Danmerkur. - Á opinberum vettvangi sameinað djúphygli og næmi, - verið fluggreindur, ástríðurfullur og kærleiksríkur, - og þrátt fyrir nokkurt sérlyndi – verið prýddur mörgum þeim kostum sem væru öðrum til eftirbreytni.

Í staðarblaði einu finnst, að hann hafi kennt blindum dreng að leika á orgel, og sá hafi hlotið mikið lof, þar eftir, á opinberum hljómleikum.

Nokkru eftir lát hans, birti staðarblað ljóð, sem líta mætti á sem svanasöng; fyrsta erindi þýtt úr þýsku, en síðan bætt við erindum frá eigin brjósti. Þar er lýst sorg rótslitins manns fjarri ættjörð. – Ort á tungu nýrra heimkynna, - ensku. 

Ég leyfi mér hér að lesa tilraun mína til þýðingar á ljóðinu Hymn to Sleep, eftir Hans Gram, 1754-1803, - forföður í 7. lið.


Óður til svefnsins

Svefninn þráir þreyttur maður,
þung er honum vökustund.
Allt hann mundi gefa glaður,
græddi svefninn mædda lund.
Konungbornir blessun þína
biðja um í næturstað.
Sorgir allra sjúkra dvína,
svefninn þegar hljótt fer að.

Kom þú, hvíld, og sefa sorgir;
syrgi horfið ættarland.
Hugar- eru hrundar borgir,
höggvið sundur ættarband.
Lát mig dreyma daga bjarta,
dökkvinn burt úr huga snýr.
Náð þá veitir nóttin svarta,
napur veruleiki flýr.

Er þér vil með höndum halda,
helga blekking, - ertu fjær.
Róður þungur, undiralda;
endalokin færast nær.
En þó þreyttur, mæddur maður,
mæta vildi á þinn fund.
- Allt ég vildi gefa glaður,
græddi svefninn mædda lund.


„Aldir þó að liðnar séu tvær“, virðast þessir feðgar, Jónatan og Hans Gram, undarlega nærri nútímanum. Þannig var einnig um hálfbróður Jónatans, Hans Benjamín, sem var þekktur og virtur læknir sem leitaði nýrra leiða. Um tíma formaður læknasamtaka sem nefndust New York Medical and Philosophical Society. – Kjarkmaður mikill. Því til sönnunar sagður hafa bjargað manni úr ljónsklóm í dýragarði.

- Leiðir þeirra sem lítt fara troðnar slóðir, eru oft þyrnum stráðar, og í lífi allra þessara manna hallaði skjótt undan fæti og fátt um veraldarauð undir lokin. 

Svo vitnað sé til þýddra minningargreina um föður Jónatans; „Metnaður, gagnsemi og hæfileikar gleymast. Rétt eins og minnisvarðar sem reistir eru mönnum til heiðurs og vegsemdar, verða fyrir skemmdum í ofsaveðri, - svo fölnar minningin.
Hverful er mannsins þekking og virði.“

- Engan bautastein hlaut Hans Jónatan í garði bláfátækrar Hálssóknar, sem nú hefur verið sléttaður. En nú má segja að minnisvarði hafi verið reistur, - með ritun Gísla á ævisögunni. Fyrir þetta verk er enn þakkað hér.

Hans Jónatan varð skammlífur maður, aðeins fjörutíu og þriggja ára. Ok fátæks fólks í örsnauðum hreppi, á fyrstu áratugum nítjándu aldar, var hans eigið ok sem hann gekkst sjálfviljugur undir. Hann safnaði því ekki veraldarauði við verslunina. – Á örlagaríkan hátt kynntist hann í uppvexti aðalshöllum og hefði eflaust getað þjónað þar yfirstétt og kvölurum hinna þeldökku; en hann kaus ekki það hlutskipti.

- Svo vitnað sé til orða Arnæusar í Íslandsklukku Halldórs Laxness: „Feitur þjónn er ekki mikill maður, en barður þræll er mikill maður, - því að í brjósti hans á frelsið heima.“

Þessi hugstæði forfaðir hafði einnig getað samsamað sig mörgum hendingum í voldugu kvæði Einars Benediktssonar, Einræðum Starkaðar „Í hallarglaum var mitt hjarta fátt, hreysið ég kaus með rjáfrið lága.“ – Og vissulega hafði hann um síðir fundið hina skammvinnu hamingju, - „fótsár af ævinnar eyðimörk“.
Bindindi þótti mikill aðall Jónatans, en það er eitt af ávöxtum andans.

- Eitthvað minnir á vorþey, þrátt fyrir allt; - raknandi fjötra á harðneskjutímum.

Í miskunnarlausri uppskrift þrotabús og dánarbús, þar sem allt er tíundað, - jafnt teskeiðar og brúkað forklæði, - slitin svunta húsfreyju, - finnst einnig margt það sem hátt bar í samtímanum: Lesefni um mannréttindi, þjóðfélagsumbætur, uppeldi, - út frá kenningum Rousseau hins franska; málfræði, hagnýt fræði, bókmenntir, - Moralske fortællinger, vel að merkja. Klausturpósturinn, tímarit Magnúsar Stephensen, talsmanns upplýsingar-stefnu, Gaman og alvara, Leirárprent hins sama með kvæðum og ýmsum greinum; menningarviðleitnin hefur fundið leið í hreysið. Sálmabækur, dönsk og íslensk (Innskot: e.t.v. útgáfa Magnúsar 1801, sem ekki þótti með öllu heppnuð). Í hreysinu hefur einnig um tíma verið orgel. Fiðla til að túlka gleði og sorg. – Þrautþjálfuð rithönd, „fáeinar línur á gulnuðu blaði“, nálgast að vera listaverk. Einhver „mannlegleikans kraftur“ birtist þarna.
– Svo vitnað sé til nútímaljóðs: „Allt sem ég á er hér, innan við hússins dyr, - hljóðfæri, bók og borð, blóm, lampi og mynd ... „
Hlý og ástvakin voru orð Katrínar, eiginkonunnar, er hún mælti í elli sinni, en hún varð ekkja tæplega þrítug: „Ég hafði allan minn heiður af Jónatan.“

Þessi eftirmæli, lík meitluðum í stein, kasta ekki rýrð á hana sjálfa, heldur minna á þá fornu en sígildu speki að kærleikur er ekki raupsamur og leitar ekki síns eigin. En orð hennar verða líka að skoðast í ljósi liðins tíðaranda. Merking nafnsins Jónatan, - guðsgjöf, hefði verið henni táknrænt.

Skuggi þrælahalds, sem Vesturlönd létu sér sæma að viðhafa, er bakgrunnur bókarinnar.

Móðurforeldrar Jónatans voru flutt frá Vestur-Afríku til Krosseyjar í Karíbahafi með þrælaskipum. Skipulagsuppdrættir og þaulhugsaðir útreikn-ingar lágu fyrir um, hversu þétt gætu skipast hlekkjaðir þrælar í lestum.

Sumir skrifa í öskuna öll sín bestu ljóð.

Ekkert skriflegt lætur ambáttin Emilía Regína, móðir Jónatans, eftir sig.
Eftirfarandi, frumsamið bundið mál, túlkar ekki raunveruleika. Hún átti að sjálfsögðu ekkert val, hvort léti barn sitt af hendi.

Ég les í lokin löngu gerða Vögguþulu móður frá Afríku á dögum þrælaplantekra.

- Þig vildi aðall eiga,
anganóra mín smá;
til vegsauka bláblóðs í æðum,
brakandi silkiklæðum;
- þig blekkja með gullnum hlekkjum
í vöggunnar blúndubekkjum
braggast um stund að mega;
saklaus í sænginni hlýju.
Svörtu táslurnar tíu
teppum flosmjúkum á.

- Þig ellegar illa fjötra
í ánauð, - klæddan í tötra,
ekrunum þrælkaðan á.
Aðalsmenn aldrei sleppa
oki, - ef barn mitt hreppa;
brennimerkt böðlum þá.
Þræll um aldur og ævi;
aðlinum finnst við hæfi
afkvæmi mitt að smá.

Angann minn enginn hreppi.
Til aðalsmanna ei sleppi,
í auð né örbirgð þeim hjá.
Handjárnum, helsi fjarri;
heima hjá móður kærri,
hampa barninu á.
Hérna á tuskuteppi
með tættum hornum og slitnum
teygja það arma má.
Augun með íbenholtlitnum
undrandi heim vorn sjá.

- Á einhvernhátt, einhverntíma,
enda mun sérhver glíma.
Endurlausn eygjum þá.

 

Þökk fyrir.

Ég óska góðra lestrarstunda með bók Gísla. 



Kristín Vilhelmína Sigfinnsdóttir
Sjólyst, Djúpavogi
Sími: 478-8867

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.10:00:00
Hiti:1,1 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:18 m/sek
Vindhviður:25 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.10:00:00
Hiti:0,2 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:8 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.10:00:00
Hiti:0,3 °C
Vindátt:NNA
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:5 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 29.3.2024
smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is