Menning

 

 
Samantekt um menningu í Djúpavogshreppi


Djúpavogshreppur á sér bæði forna og nýja menningu. Verslun hefur verið rekin hér í byggðarlaginu í meira en 400 ár og þar af lengi vel sú eina á suðausturhorni Íslands.

Kaupmenn þeir sem hér höndluðu voru af ýmsum þjóðernum, enskir, þýskir og síðar danskir, uns landsmenn tóku höndlunina í eigin hendur.

Það er því ljóst að hingað hafa legið menningarstraumar, erlendir jafnt sem íslenskir og mótað mannlíf byggðarlagsins strax í árdaga.

Einnig má nefna að hér eru upphafsdagar kristni á Íslandi, þegar Þangbrandur kristniboði skírði heimilisfólkið að Þvottá, til hins nýja siðar, laust fyrir árið 1000 og trúlegt er, að við það hafi orðið viðamiklar breytingar á háttum manna og lífsviðhorfi.

Af seinni tíma mönnum, sem hafa mótað menningu hér, má nefna bræður tvo; myndhöggvarann Ríkharð og málarann Finn, Jónssyni, frá Strýtu í Hamarsfirði. Þeir mörkuðu djúp spor í menningu okkar hér við voginn djúpa, með list sinni og lífi og er ánægjulegt að geta daglega notið listaverka þeirra, sem til sýnis eru bæði í menningarmiðstöðinni Löngubúð og víðar í byggðarlaginu.

Einnig má nefna rithöfundinn Stefán Jónsson frá Rjóðri á Djúpavogi, sem hefur í bókum sínum gert mannlíf hér um slóðir ódauðlegt, með lýsingu sinni á alþýðumenningu, dugnaði og samheldni íbúanna í sveitarfélaginu, á erfiðum tímum fátæktar og atvinnuleysis á síðustu öld.

Vel uppbyggt nútíma samfélag með góðri þjónustu, náttúrufegurð, fjölbreytt fuglalíf, margháttuð ferðaþjónusta, hlýlegt og hógvært viðmót og mannlíf er það sem stendur íbúum hér og gestum þeirra til boða í dag.

Smekkleg og vel upp sett lista- og náttúrugripasöfn hér á staðnum bera vott um umhyggju heimamanna fyrir þeim verðmætum, sem þarf að varðveita.

Endurbygging og varðveisla gamalla húsa og sérstætt skipulag þéttbýlisins á Djúpavogi, er lýsandi dæmi um virðingu íbúanna hér fyrir fögru og sérkennilegu umhverfi staðarins, með öllum sínum klettum, kömbum og strýtum. Allt er gert, til að slíkt fái notið sín sem best og ekki má gleyma merktum gönguleiðum, þar sem fólk getur notið útiveru, umhverfis og fjölbreytts fuglalífs í friði og ró.

Að öðru leyti en því, sem áður hefur verið minnst á, er lista- og menningarlíf hér hliðstætt og í öðrum byggðarlögum landsins.

Hér er þó óvenju blómlegt tónlistarlíf, enda mjög marga góða tónlistarmenn að finna, sem bæði er afrakstur af öflugu starfi tónlistarskóla og tengist ennfremur starfi Vísnavina, er staðið hafa fyrir skemmtunum og fræðslu hér um árabil. Einnig eru þeir menn hér ófáir, sem halda dyggilega til haga gömlum fróðleik og sögnum og miðla til þeirra, sem áhuga hafa. Vert er í því sambandi að geta sérstaklega Ingimars Sveinssonar og bóka hans tveggja um mannlíf við Djúpavog og í byggðarlögunum, sem runnu saman við tilurð Djúpavogshrepps. Margir aðrir hafa þó einnig um stílvopn haldið og ber að þakka þeim öllum.

Það er ánægjulegt að geta endað þetta spjall með því að segja frá því að margt af því unga fólki hér á staðnum, sem aflað hefur sér menntunar, snýr aftur hingað heim, sest hér að og lætur til sín taka og flytur þannig enn með sér nýja menningarstrauma, ekki síður en höndlararnir og ferðafólkið fyrir 400 árum sem minnst var í upphafi.

 

Maí 2006;
Hrönn Jónsdóttir,
form menningarmálan.
Djúpavogshrepps

Veðrið í dag
Veðurstöðin Papey kl.08:00:00
Hiti:4,2 °C
Vindátt:SSA
Vindhraði:3 m/sek
Vindhviður:3 m/sek
 
 
Veðurstöðin Teigarhorn kl.08:00:00
Hiti:3,1 °C
Vindátt:V
Vindhraði:1 m/sek
Vindhviður:2 m/sek
 
 
Veðurstöðin Hamarsfjörður kl.08:00:00
Hiti:4,4 °C
Vindátt:ANA
Vindhraði:4 m/sek
Vindhviður:6 m/sek
 
 
Flóð og Fjara: 20.4.2024
smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        
             
Fjölmenningarsetur
Fiskmarkaður Djúpavogs
Ísland.is