Forsíđa
09.03.2010 - Nýr ferđavefur
 

Eins og glöggir og dyggir lesendur heimasíðu Djúpavogshrepps hafa tekið eftir, hefur sveitarfélagið nú endurnýjað útlit hennar. Segja má að það sé í takt við tímann og auk þess endurnýjun á svo veigamiklum upplýsingamiðli, sem heimasíða okkar er, hluti af eðlilegri þróun. Bætt hefur verið við nýjum „flipum“, þ.e. höfuðsíðum, og þar með aukið og flýtt fyrir aðgengi að hinum ýmsu valmöguleikum sem við viljum bjóða uppá. Þær höfuðsíður eru fyrir höfnina og ferðamál, þar sem ferðaþjónusta hefur sífellt aukið vægi í umsvifum sveitarfélagsins og íbúa þess. Í hjáleið má bæta því við að gárungarnir í okkar hópi halda því fram að það að bæta við höfuðsíðum og leysa þar með aðgengismál séu nokkurs konar höfuðlausnir og gerir Egill Skallagímsson ekki athugasemdir við þá orðnotkun.

Á næstu vikum munum við þurfa að fínstilla ákveðna þætti umhverfis þess sem við ætlum að bjóða upp á og verða allar ábendingar um það sem betur mætti fara teknar til skoðunar.

Við viljum nota tækifærið og þakka jákvæð viðbrögð við mörgu af því sem okkur dettur í hug að bjóða lesendum upp á að skoða og stundum er sett fram á léttvægum nótum. Jafnframt lýsum við því yfir að við ætlum áfram að bjóða upp á metnaðarfulla og áhugaverða heimasíðu, en gerum okkur grein fyrir ábyrgð okkar að viðhalda því orðspori sem hún hefur nú þegar unnið sér.

 

Djúpavogi 5. mars 2010;

Bj. Hafþór Guðmundsson, sveitarstjóri
Ólafur Björnsson, ritstjóri heimasíðu Djúpavoghrepps
Bryndís Reynisdóttir, ferða- og menningarmálafulltrúi Djúpavogshrepps