Forsíða
31.01.2011 - Viðhorf ferðamanna til náttúruverndar jákvæð
 

Mikill meirihluti ferðamanna er heimsóttu Djúpavog síðasta sumar telja líklegra en ella að þeir muni heimsækja þorpið og nágrenni þess aftur verði náttúruverndarstefna sveitarfélagsins framkvæmd. Þetta er ein meginniðurstaða rannsóknar sem Páll Jakob Líndal, doktorsnemi í umhverfissálfræði, vann fyrir Djúpavogshrepp síðastliðið sumar en í nýlega staðfestu aðalskipulagi hreppsins fyrir tímabilið 2008-2020 er að finna metnaðarfulla stefnu í náttúruvernd. Sömuleiðis telur meirihluti ferðamanna heimsókn í Dúpavogshrepp vera andlega endurnærandi og streitulosandi.

Í könnun sem lögð var fyrir ferðamenn(bæði íslenska og erlenda) sem heimsóttu upplýsingamiðstöðina Löngubúð, Hótel Framtíð og þjónustumiðstöð tjaldsvæðis Djúpavogs í fyrrasumar sögðu 87,3% svarenda að viðhorf þeirra gagnvart Djúpavogshreppi yrðu jákvæðari næði stefna sveitarstjórnar í náttúruverndarmálum fram að ganga. Þá segja 84,5% svarenda líklegra að þeir muni heimsækja svæðið á nýjan leik verði stefnan að veruleika. Landslag og náttúra er meginaðdráttarafl Djúpavogshrepps að mati ferðamanna en 71,2% svarenda völdu náttúru þegar þau voru beðin um að velja hvert eftirtalinna þeim líkaði best við: Náttúra, hið byggða umhverfi Djúpavogs, þjónusta og aðstaða sem boðið var upp í þorpinu eða mannlífið.

Tilgangur könnunarinnar var tvíþættur. Annars vegar að meta viðhorf ferðamanna til náttúruverndar og stefnu Djúpavogshrepps í þeim málum og hins vegar að kanna hvort ferðamenn telji heimsókn í Djúpavogshrepp vera andlega endurnærandi og hvort veðurfar á staðnum geti haft áhrif þar á. Almennt töldu ferðamenn sig upplifa streitulosun við að heimsækja svæðið en þó voru áhrif skýjafars á þá niðurstöðu merkjanleg þannig að Austfjarðaþokan hafði neikvæð áhrif á mat ferðamanna á streitulosun.

Alls svaraði 141 ferðamaður könnunni, þar af voru 54% erlendir.

Nánari upplýsingar:

Rannsóknina má finna í heild sinni með því að smella hér

Páll Jakob Líndal

N: pall.jakob.lindal@gmail.com

H: www.palllindal.com