ForsÝ­a
30.08.2011 - Ůjˇ­sagnahelgin Ý Berufir­i
 

Um síðastliðna helgi fór fram þjóðsagnahelgi í Berufirði. Að sögn þeirra sem að henni stóðu tókst hún vonum framar, þátttaka var mjög góð og veðrið eins og best verður á kosið. Þarna voru margir gestanna að hittast í fyrsta skipti í mörg ár og sumir þeirra burtfluttu Djúpavogsbúa sem hátíðina sóttu höfðu ekki komið heim í áraraðir.

Hátíðin hófst á laugardeginum á helgistund í Berufjarðarkirkju, sem séra Sjöfn Jóhannesdóttir stjórnaði. Að henni lokinni flutti Gauti Jóhannesson sveitarstjóri ávarp og að því loknu hófst eiginleg dagskrá.

Upplesarar komu fram, hver á fætur öðrum, fluttu þjóðsögur sem og sannar sagnir, gamlar og nýjar auk ljóða.
Margt annað var á boðstólnum, svo sem barnasögur í barnahorni, Berglind Agnarsdóttir frá Fáskrúðsfirði, íslandsmeistari í sagnalist, kom fram og sagði frá af sinni alkunnu snilld, rímur voru kveðnar og þá var veislukaffi báða dagana. Auk þessa gafst gestum kostur á að skoða Nönnusafn og gamla bæinn, að ógleymdri kirkjunni.

Til stendur að gefa afrakstur hátíðarinnar út í smáriti og mun allur ágóði renna til styrktar Nönnusafni, en því góða safni bárust margar gjafir um helgina.

Myndir frá laugardeginum má sjá með því að smella hér.

ÓB