Forsíða
01.09.2011 - Hrein völundarsmíð
 

Upphaflega stóð til að setja mynd af fyrirbæri því, sem þessi frétt fjallar um, inn í bæjarlífspakka sem væntanlegur er.

Að betur athuguðu máli var ljóst að það væri fyllilega búið að vinna sér inn sérstaka frétt á heimasíðunni. Fyrirbærið, sem hefur ekki hlotið nafn, var upphaflega sett saman í tengslum við hverfakeppni á 17. júní og fékk m.a. mynd af sér birta á heimasíðunni, ásamt höfundi sínum, í myndasyrpu tengda þjóðhátíðardeginum. Þar vakti það strax mikla og verðskuldaða athygli.

Það varð úr að fyrirbærinu var komið fyrir framan við fuglasafnið og er skemmst frá því að segja það leið varla sá hálftími í sumar að ekki voru einhverjir að skoða og taka myndir. Í stuttu máli sagt erum við nokkuð viss um að fátt hafi vakið jafn mikla athygli ferðamanna og þetta fyrirbæri.

Við erum að sjálfsögðu að tala um "hreindýrið" sem er völundarsmíð Skúla nokkurs Benediktssonar, heimamanns. Er það sett saman úr hreindýrshornum og er því um að ræða nokkurs konar hreindýrshornahreindýr. Það sómir sér gríðarlega vel í miðbænum og er okkur og að vitaskuld Skúla sjálfum til mikils sóma. Sennilega eru myndirnar sem teknar hafa verið af því orðnar óteljandi, hvort sem menn taka myndir af því einu og sér eða stilla sér upp og láta taka myndir af sér við hlið þess.

Við sem að heimasíðunni stöndum þökkum Skúla Ben. framlag hans og það að gera Djúpavog að skemmtilegri og þekktari bæ. Ljóst er að myndir af verki hans hafa farið víða um lönd og munu stuðla að því að vekja áhuga þeirra, er hyggja á ferðir til Íslands að heimsækja byggðarlagið okkar, m.a. til að berja augum hreindýrshornahreindýrið.

ÓB

 

 

 


Skúli Benediktsson og hreindýrið