Eysteinn Jónsson

ÆVIÁGRIP

Eysteinn Jónsson ráðherra fæddist 13. nóvember 1906 að Hrauni á Djúpavogi. Foreldar Eysteins voru Sigríður Hansdóttir Beck húsmóðir, fædd að Sómastöðum við Reyðarfjörð 2. maí 1872, dáin 25. september 1949, og Jón Finnsson prestur, fæddur 17. ágúst 1865 á Desjamýri í Borgarfirði eystra, dáinn 25. apríl 1940. Foreldar Sigríðar voru hjónin Hans Beck útvegsbóndi og Steinunn Pálsdóttir húsfreyja. Foreldrar séra Jóns voru séra Finnur Þorsteinsson og Ólöf Einarsdóttir húsfreyja. Bróðir Eysteins var, Jakob prestur og doktor í guðfræði, fæddur 20. janúar 1904 og dáinn 17. júní 1989.

Eysteinn lauk Samvinnuskólaprófi árið 1927 og nam við Pitman´s College í Lundúnum sumarið 1929. Hann stundaði sjómennsku og verslunarstörf á Djúpavogi, Stöðvarfirði og Siglufirði frá 1922 til 1925. Að loknu námi í Samvinnuskólanum 1927 starfaði hann í Stjórnarráðinu til 1930. Tuttugu og fjögurra ára að aldri varð Eysteinn skattstjóri í Reykjavík og formaður niðurjöfnunarnefndar útsvara, en þeirri stöðu gengdi hann til 1934.

Árið 1933 var Eysteinn Jónsson kosinn til Alþingis sem þingmaður S-Múlasýslu, aðeins 26 ára að aldri. Eysteinn gegndi þingmennsku óslitið til 1974, frá 1959 sem fyrsti þingmaður Austurlandskjördæmis. Hann varð fjármálaráðherra 1934, yngstur allra, 27 ára gegndi því embætti til 1939 og síðar frá 1950 til 1958. Eysteinn var viðskiptaráðherra frá 1939 til 1942 og síðar menntamálaráðherra frá 1947 til 1949. Forseti sameinaðs Alþingis var hann 1971 til 1974. Eysteinn var ritari Framsóknarflokksins í 28 ár eða frá 1934 til 1962. Hann var formaður þingflokks framsóknarmanna árið 1934 og árin 1943 til 1969 samfellt. Eysteinn var formaður Framsóknarflokksins frá 1962 til 1968. Hann var kosinn í skilnaðarnefnd og stjórnarskrárnefnd á Alþingi 1944 og starfaði í íslensk-danskri samninganefnd um ýmis málefni sambandsslitanna 1945 til 1946. Eysteinn átti auk þess sæti í fjölmörgum milliþinganefndum á meðan hann sat á þingi, meðal annars sem formaður nefndar um landnýtingar- og landgræðsluáætlun til minningar um ellefu aldar byggð í landinu 1974.

Eysteinn átti sæti í Norðurlandaráði frá 1968 til 1971 og var formaður menningarmálanefndar þess frá 1969 til 1971. Eysteinn gegndi formennsku í Náttúruverndarráði frá 1972 til 1978, sat í Þingvallanefnd frá 1968 til 1974 og var formaður hennar frá 1971.

Þá var Eysteinn framkvæmdastjóri Prentsmiðjunnar Eddu hf. frá 1943 til 1946. Var í blaðstjórn Tímans áratugum saman, til 1979. Hann sat í stjórn Sambands íslenskra samvinnufélaga frá 1944 til 1978 og var formaður stjórnar þess frá 1975 til 1978 og varaformaður þar á undan. Eysteinn var einn af stofnendum Kaupfélags Reykjavíkur 1931 og í stjórn þess þar til félagið sameinaðist KRON 1934. Hann tók sæti í stjórn Byggingarsamvinnufélags Reykjavíkur við stofnun þess 1932 og sat í henni til 1934.

Eftir Eystein liggur fjöldi smárita og ritgerða ásamt óprentuðum handritum sem fjalla einkum um stjórnmál, útivistarmál, landnýtingarmál og náttúruvernd en þessir málaflokkar voru Eysteini hugstæðir.

Ævisaga í þremur bindum, skráð af Vilhjálmi Hjálmarssyni, kom út á árunum 1983 til 1985.

Fyrir störf sín að félagsmálum og stjórnmálum, íþróttum, útivist og náttúruvernd hlaut Eysteinn ýmsar viðurkenningar. Þar má helst nefna: Heiðursfélagi í SÍS, Sambands ungra Framsóknarmanna og Framsóknarfélags Reykjavíkur. Eysteinn hlaut heiðursmerki Ferðafélags Íslands, Íþróttaráðs Reykjavíkur og Skíðasambands Íslands.

Eysteinn var mikill áhugamaður um útivist og náttúruvernd. Hann stundaði skíðaíþróttina fram á seinni ár og fór reglulega í gönguferðir fram til hins síðasta.

Eysteinn Jónsson ráðherra andaðist í Reykjavík 11. ágúst 1993.

Eysteinn kvæntist Sólveigu Eyjólfsdóttur 20. febrúar 1932 og varð þeim sex barna auðið, en þau eru:
Sigríður fædd 1933, Eyjólfur fæddur 1935, Jón fæddur 1937, Þorbergur fæddur 1940, Ólöf Steinunn fædd 1947 og Finnur fæddur 1952.

Sólveig fæddist í Reykjavík 2. nóvember 1911. Foreldrar hennar voru hjónin Eyjólfur S. Jónsson múrari fæddur 15. október 1885, dáinn 20. febrúar 1967, og Þorbjörg Mensaldursdóttir húsmóðir, fædd 10. janúar 1881, dáin 4. júni 1945. Systkini Sólveigar voru tvö, Guðlaugur, fæddur 15. ágúst 1915 og dáinn 16. september 1992, og Hólmfríður, fædd 1917. Kjörsonur þeirra hjóna Eyjólfs og Þorbjargar er Finnur, fæddur 1929.

Eyjólfur faðir Sólveigar var vel þekktur múrari í Reykjavík og einn af stofnendum Múrarafélags Reykjavíkur árið 1917. Foreldrar hans voru Jón Eyjólfsson, Þorgeirssonar, steinsmiður í Reykjavík og Hólmfríður Hannesdóttir. Foreldrar Þorbjargar Mensaldursdóttur voru Mensaldur Jónsson, bóndi á Rannveigarstöðum í Geithellnahreppi í Surður-Múlasýslu og kona hans Guðlaug Þorleifsdóttir. Þorbjörg ólst upp að Halldórsminni, Djúpavogi, og má geta þess að séra Jón, faðir Eysteins, fermdi hana.

Sólveig ólst upp í Reykjavík, að Bergstaðastræti 46. Að loknu skyldunámi var hún einn vetur í Kvennaskólanum og síðan í kaupavinnu, meðal annars á Sámsstöðum hjá Búnaðarfélaginu. Einn vetur var hún í vist í Vestmannaeyjum en því næst vann hún ýmis störf, svo sem verslunarstörf hjá Hljóðfærahúsi Reykjavíkur og gat sér gott orð fyrir dugnað og vinnusemi.

Sautján ára að aldri nam Sólveig í Leiklistarskóla Haraldar Björnssonar og gekk í Leikfélag Reykjavíkur. Hún lék meðal annars aðalhlutverk í Dómum og hlaut mikið lof fyrir. Þótti hún búa yfir miklum hæfileikum þrátt fyrir ungan aldur. Þótt Sólveig léki nokkrum sinnum með ágætum á leiksviðinu átti annað fyrir henni að liggja en að gerast leikkona. Listhneigð hennar fékk útrás um ævina við hannyrðir sem vöktu ánægju og aðdáun manna.

Það var hlutskipti Sólveigar að hafa með Eysteini á hendi forystuhlutverk við mörg tækifæri og annast erilsamt stjórnmálaheimili sem Ásvallagata 67 var og fórst henni það allt með þeim hætti að minnst er með ánægju og þakklæti af þeim sem þess nutu.

Sólveig Eyjólfsdóttir andaðist í Reykjavík 29. júní 1995.




MYNDIR

 


Eysteinn og Sólveig í einni af fjölmörgum fjölskyldugönguferðum.
Börn, barnabörn og barnabarnabörn Eysteins og Sólveigar fara saman í fjölskyldugönguferðir annan hvern sunnudag á hverju sumri og hafa gert það í rúmlega aldarfjórðung.



Stjórnarskrárnefndir beggja deilda Alþingis 1944, sameinaðar. Gunnar Thoroddsen, Stefán Jóhann Stefánsson, Bjarni Benediktsson, Hermann Jónasson, Magnús Jónsson, Eysteinn Jónsson, formaður nefndarinnar, Einar Olgeirsson, Gísli Sveinsson, Bernharð Stefánsson, Brynjólfur Bjarnason, Sveinbjörn Högnason og Ólafur Thors.


„Svartur dagur í sögu landsins” - Eysteinn Jónsson, leiðtogi stjórnarandstöðunnar gegn Viðreisnarstjórninni, í ræðustól á alþingi 11. nóvember 1968 - tilefnið gengishrun íslensku krónunnar um tæp 55%. Í baksýn eru ritarar Alþingis, þeir Ásgeir Pétursson og Ingvar Gíslason.