Dalir voru aðsetur læknis frá því að Búlandsnes er lagt niður sem læknissetur og þar til Hlymsdalir voru byggðir, upp úr 1960. Eftir því sem fróðir menn segja, voru Dalir og Sólhóll samtímis í byggingu.

Hinn 11. apríl 1930 er haldinn hreppsnefndarfundur á Djúpavogi, þar sem hreppsnefnd samþykkir að veita oddvita heimild til að sækja um 2.000 króna lán til að byggja læknisbústað á Djúpavogi, samkvæmt beiðni Árna Árnasonar læknis á Búlandsnesi. Staddur var á fundinum Johan Bremnes frá Akureyri, til að falast eftir ábúð á Búlandsnesi. Hreppsnefnd samþykkti að sækja um lánið, gegn a.m.k.  jafnhárri upphæð frá hinum hluta læknishérðasins. Einnig að ganga í ábyrgð fyrir Johan Bremnes á 5.700 króna víxilláni á nafni Árna læknis, sem hreppurinn var í ábyrgð fyrir, en Bremnes yfirtæki við flutning að Búlandsnesi. Fljótlega mun hafa verið byrjað á byggingu læknisbústaðarins. Var þar yfirsmiður Hóseas Björnsson úr Breiðdal. Sama ár mun Ólafur Eiríksson frá Hvalnesi hafa unnið að byggingu nýs húss í Sólhól fyrir Jón Sigurðsson (síðar kaupfélagsstjóra) og mág hans, Ágúst Lúðvíksson (Jónssonar), verslunarmanns. Var nokkurt kapp á milli þeirra smiðanna, um að vera fyrstir að ljúka verkinu, en ekki er það alveg vitað hvernig sú keppni endaði.