Hús Weyvadts kaupmanns á Teigarhorni var byggt á árunum 1880-1882. Þar bjó eftir hann dóttir hans, Nikoline Weyvadt, fyrsti lærði kvenljósmyndarinn á Íslandi.. Eftir hana liggur mikið og merkilegt ljósmyndasafn. Einnig systurdóttur hennar, Hansínu Björnsdóttur, er stundaði ljósmyndun allt fram undir 1940. Hansína og maður hennar, Jón Kr. Lúðvíksson, bjuggu á Teigarhorni til 1958. Kristján, sonur þeirra, tók við jörðinni. Skrifstofa gamla Weyvadts kaupmanns hefur verið varðveitt eins og hún var, þegar hann gekk út úr henni í síðasta sinn, en hann var bráðkvaddur 13. ágúst 1883. Það bar þannig til, að Weyvadt var við vinnu á saltfiskreit, sennilega á svipuðum stað og fjárhús og hlaða standa nú (reyndar var annar fiskreitur niðri á tanga). Með honum við vinnu var unglingspiltur. Weyvadt taldi fiskana og heyrði pilturinn að hann nefndi 60, síðan varð þögn. Þegar pilturinn leit við, sá hann Weyvadt á fiskreitnum, örendan.

Á Teigarhorni er unnið að endurbyggingu gamla bæjarins, sem fyrirhugað er að geymi meðal annars sögu Nicoline Weyvadt en plötusafn hennar og ýmis áhöld til ljósmyndunar eru varðveitt í Þjóðminjasafninu.