News
22.05.2007 - Selalátur í Brimilsnesi
 

Síðastliðinn sunnudag fór undirritaður í skemmtilega ferð með hópi valinkunnra manna í eyjuna Brimilsnes í Álftafirði og má segja að þessi fallega eyja beri sannarlega nafn með rentu. Á eyðinu á sunnanverðri eyjunni er þekkt selalátur og þar lágu kobbarnir í tugatali þegar okkur bar að garði. Selirnir liggja gjarnan uppi á sandleirum á fjörunni en renna sér síðan í sjóinn þegar flæðir að. Í seinni hluta maí og byrjun júni kæpa urturnar og þarna mátti m.a. sjá nýkæpta kópa með naflastenginn utan á sér. Þegar ljósmyndari nálgaðist látrið renndu urturnar sér hver af annarri í sjóinn og kóparnir sem höfðu burði til, dönsuðu á eftir með miklum bægslagangi, en aðrir höfðu ekki enn krafta til að skríða í sandinum. Kóparnir nærast nær eingöngu á móðurmjólkinni fyrsta mánuðinn og þá safna þeir miklu spiki. Þeir fara þó á sund strax í fyrstu vikunni eftir fæðingu og læra snemma að bjarga sér með æti. Á myndunum má m.a. sjá nýkæptan kóp þar sem hann hefur velt sér um í leðjunni á sandleirunni. AS