Fréttir
18.11.2008 - Tónlist fyrir alla
 
Í dag heimsótti Grunnskólann tónlistarfólk á vegum verkefnisins Tónlist fyrir alla. Er þetta orðinn árviss viðburður þar sem þekktir tónlistarmenn heimsækja skóla á Íslandi og kynna fyrir nemendum hin ýmsu stílbrigði tónlistarinnar. Í ár taka þátt í verkefninu tónlistarmennirnir Gunnar Hrafnsson, Ásgeir Óskarsson og Björn Thorodssen ásamt söng- og leikkonunni Ólafíu Hrönn Jónsdóttur. Verk þeirra ber yfirskriftina "Heimsreisa Höllu", en þemað er þjóðvísan "Ljósið kemur langt og mjótt", sem fjallar um Höllu kerlingu. Þjóðvísan er síðan spiluð út alla tónleikana og sniðin að hinum ýmsu alþjóðlegu stílum og börnunum þar með boðið með í heimsreisuna.

Það er skemmst frá því að segja að heimsreisan vakti gríðarlega lukku, bæði meðal nemenda sem og kennara. Ólafía Hrönn fór gjörsamlega á kostum og brá sér í "allra þjóða líki", eins og meðfylgjandi myndir sýna glögglega. Þá fékk hún nemendur og kennara til að taka þátt í verkinu og nokkrir sjálfboðaliðar úr þeirra röðum stigu á svið og fóru ekki síður á kostum en Ólafía sjálf.

Um undirleik hljóðfæraleikara þarf að ekki að orðlengja, því óðafinnanlegur var hann eins og þeirra er von og vísa.

Að tónleikum loknum mátti Ólafía hafa sig alla við að veita nemendum eiginhandaráritanir, því eins og flestir vita leikur hún hina óviðjafnanlegu Guggu í Dagvaktinni sem um þessar mundir er sýnd í sjónvarpinu við fáheyrðar vinsældir. Þegar það fréttist að sjálf Gugga væri á leiðinni á Djúpavog varð uppi fótur og fit í skólanum og börnin mættu öll á tónleikana með blað fyrir eiginhandaáritun, því jafnfræga persónu hafa þau, að eigin sögn, varla litið á ævinni.

Flestir hváðu hins vegar þegar Ólafía skrifaði Lolla á blöðin, en það er gælunafn hennar, því krakkarnir voru vissir um að Gugga sjálf myndi veita áritunina.
 
Myndir frá tónleikunum má sjá með því að smella hér.
 
ÓB

smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30