Fréttir
26.03.2008 - Goðamót 6. flokks
 
Helgina 14. - 16. mars fóru galvaskir strákar og ein galvösk stelpa til Akureyrar, ásamt foreldrum og systkinum.  Tilgangurinn var að taka þátt í árlegu Goðamóti Þórs á Akureyri.  Mikil spenna var í hópnum og væntingarnar miklar.  Liðið okkar var skráð sem B-lið, sem þýðir næst mesti styrkleikaflokkur.  Ljóst var að andstæðingarnir yrðu erfiðir en þó ekki útilokað að við ættum möguleika á sigri.  Fyrsta leikinn spiluðum við á föstudeginum við B-lið Breiðabliks og fór sá leikur 2-3, fyrir Blika.  Sýndu okkar menn (og kona) snilldartakta og voru aðstandendur og þjálfari mjög ánægð í leikslok með baráttuandann og úrslitin. 
Á laugardeginum spiluðum við þrjá leiki, á móti Huginn, Fjarðabyggð og Magna.  Það var ótrúlegt að fylgjast með leikjunum, okkar menn óðu í færum en einhverra hluta vegna náðum við ekki sigri í leikjunum, töpuðum þeim öllum með 1-2 marka mun.  Á laugardagskvöldinu borðuðum við öll saman í Glerárskóla en síðan var kvöldvaka.  Þar tóku keppendur þátt í margs konar þrautum, t.d vítaspyrnukeppni, reipitogi o.fl.  Bjarni Tristan sigraði í flokki B-liða í að halda bolta á lofti og ætlaði fagnaðarlátunum hjá okkur Neistamönnum aldrei að linna.  Síðan var boðhlaup og varð okkar lið í öðru sæti í sínum riðli.  Til úrslita kepptu þrjú lið og þar sem það vantaði fjórða liðið bað keppnisstjórinn foreldrana að koma með eitt lið.  Fimm voru í liðinu og þar sem við Djúpavogsbúar erum nú ekki þekktir fyrir annað en að vera virk og til í allt, þá fórum við fjögur fullorðin frá Djúpavogi, ásamt einum karlmanni, sem við ekki kunnum deili á.  Gerðum við okkur lítið fyrir og sigruðum boðhlaupið en þar sem við vorum aðeins gestalið, fengum við engin verðlaun.
Á sunnudeginum kepptum við einn leik, á móti KS og náðum jafntefli þar.  Markahæstur hjá Neista var Tómas og skoraði hann 5 mörk.  Mótið var í alla staði frábært, krakkarnir og allir foreldrarnir glaðir og skemmtu sér hið besta.  Ljóst er að stefnan verður tekin á Goðamót aftur að ári.  Myndin hér til hliðar er tekin af Ómari Enokssyni.  HDH

smþmffl
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30