Fréttir
20.09.2010 - Foreldrafundur í leikskólanum
 

Síðastliðinn fimmtudag, 16. september, var haldinn opinn foreldrafundur í leikskólanum.  Fundurinn var vel sóttur bæði af mömmum og pöbbum þó aðalega mömmum.  September hefur verið nýttur til þess að aðlaga inn ný börn og fínisera starfið á deildunum.  Það verða 36 börn í leikskólanum í vetur og hefur fjölgað um 11 börn frá því í fyrra.  Við þurfum því að prófa ýmislegt og þróa annað áður en við sjáum hvort það virkar eða virkar ekki.  Báðar deildirnar eru fullsetnar en 20 börn eru á eldri deildinni og 16 börn á þeirri yngri.  Við munum því nota öll þau rými sem eru í húsinu, listakrók, salinn sem er skipt í tvennt fyrir sitthvora deildina, viðtalsherbergið og ganginn.  Fataklefinn verður jafnvel líka nýttur sem leiksvæði í vetur.  

Í allt sumar auglýstum við eftir leikskólakennara og ekki var mikið um fyrirspurnir né umsóknir en rétt fyrir opnun rættist úr málunum en það stóð þó yfir í stuttan tíma.  Við auglýstum aftur og nú hafa fyrirspurnum rignt inn, bæði heimafólk og aðkomufólk, þó svo að umsóknarfresturinn sé löngu liðinn.  Vanessa byrjaði á Krummadeild í síðustu viku en hún verður í ca. 50% starfi og síðan mun Júlía Hrönn byrja þann 1. október í 100% starfi inn á Kríudeild.  Hafdís ætlar að hætta þá og um leið og við þökkum henni kærlega fyrir þann tíma sem hún var með okkur, óskum við henni alls hins besta.  Hugrún er áfram í sínu námi til leikskólakennara og verður hún eitthvað frá vegna þess en Þórdís mun leysa hana af.  

Vetrarstarfið var kynnt en foreldrar fengu send heim hefti þar sem farið var yfir skipulag vetrarins.  Helstu breytingarnar eru að nú opnum við á báðum deildum kl. 7:45 og það fer að verða mikilvægt að börnin hafi klæðnað við hæfi með sér í leikskólann.  Kuldagalli, regngalli, ullasokkar og 2 pör af vettlingum geta verið nauðsynleg en einnig aukaföt ef þau blotna.  Við erum ekki með neinn fatnað til að lána börnunum og þurfu því að hringja eftir slíku ef þetta vantar hjá barni.  Útivera verður á hverjum degi ef veður leyfir en börnin á Kríudeild fara út eftirhádegi eins og síðastliðin ár og börnin á Krummadeild fara út fyrir hádegi.  Við getum ekki látið báðar deildir út á leiksvæðið á sama tíma vegna fjölda systkina milli deilda og vegna skipulagsins á hópastarfinu á Kríudeild.  Afmæli barna á leikskólanum verða framvegis þannig að barnið fær afmæliskórónu á afmælisdaginn og sungið verður fyrir barnið í samverustundinni kl. 10:00.  Ef barnið vill koma með eitthvað má það koma með ávexti til að bjóða í ávaxtatímanum.  Síðasta föstudag í mánuði verður svo haldið upp á afmæli mánaðarins þar sem afmælisbörn hvers mánaðar fá að blása á kertin og boðið verður upp á eina afmælisköku fyrir afmælisbörnin.  Hægt er að sjá hvenær verður haldið upp á afmælin í skóladagatali leikskólans.  Vegna mistaka þá lenti september-afmælin á fimmtudegi en ekki föstudegi og ætlum við að halda afmælisdögunum eins og þeir eru á skóladagatalinu.  Í október verður Bóndavarðan með nýju sniði og ætlar leikskólinn að senda inn fréttir og upplýsingar í hana eins og hádegismatseðilinn fyrir mánuðinn.

Deildarstjórar sögðu frá því að farið verði í bókasafnið á föstudögum í vetur með börnin á Kríudeild, eldri börnin á Krummadeild og börnin á Kríudeild fara annan hvern miðvikudag í íþróttahúsið en hinn miðvikudaginn fer Kríudeildin í vettvangsferðir um nágrennið.  Haldið verður áfram með öðruvísi föstudaga þar sem börnin mega koma í, með eða gert verður eitthvað sérstakt þann föstudaginn.  Deildarnar ætla að taka upp þemastarf þar sem ákveðið þema mun fara í gegnum allt starfið á báðum deildum.   

Fyrirspurnir frá foreldrum komu um verkefnin í listakrók, þar sem mætti vera fjölbreytni og tók starfsfólkið vel í þá hugmynd og ætlar að leggja sig fram um að finna nýjar og fleiri hugmyndir fyrir listakrókinn.  Einnig var útivera barna á Kríudeild rædd en bæði Neistatímar og forskólatímar fyrir elsta árganginn eru eftir hádegi þegar útivera leikskólans er.  Börnin á Kríudeild munu hins vegar fara út fyrirhádegi þó ekki verði farið á leiksvæðið þar sem bæði verður farið í tónlist upp í tónskóla og í íþróttahúsið.  Síðan eru það vettvangsferðirnar aðra hverja viku.  Neistatímar og forskóli Tónskólans er val foreldranna og er því miður á sama tíma og útiveran er hjá deildinni en útiveran er til kl. 14:30 þannig að flest börnin í elsta árgangnum sem eru allan daginn í leikskólanum ættu að fá einhverja útiveru á hverjum degi.  

Foreldrafélagið gaf út lítinn bækling þar sem stiklað var á stóru yfir það sem var gert í vetur.  Síðast verk fráfarandi stjórnar var svo að gefa leikskólanum nýja digital myndavél og þökkum við þeim kærlega fyrir en hún mun koma að góðum notum í vetur.  Ný stjórn var kosin og í henni starfa Íris Dögg og Kristján, Inga og Óli, Hafdís og Baddi og Vanessa og Gunnar.  

ÞS


smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31