Fréttir
30.06.2017 - Staðan á Cittaslow verkefninu í Djúpavogsskóla
 

Nú er ár liðið frá því að nemendur og starfsfólk í Djúpavogsskóla tóku það gæfuspor að ákveða að innleiða hugmyndafræði Cittaslow í skólana.  Töluverð undirbúningsvinna hafði farið fram áður en þetta var ákveðið og höfðu viðræðu- og spjallfundir verið haldnir haustið 2015.  Það var hins vegar í byrjun árs 2016 sem allt var sett á fullt og sótt var um tvo styrki til að aðstoða okkur við innleiðinguna.  Annars vegar hjá Sprotasjóði, Kennarasambands Íslands og hins vegar frá Erasmus+ sem er hluti af menntaáætlun Evrópusambandsins, en Rannís á Íslandi sér um utanumhaldið hér á landi. 

Okkur til mikillar ánægju fengum við báða styrkina sl. vor, 2,1 milljón frá Sprotasjóði og um 4,5 milljón frá Erasmus+.  Frá hausti 2016 höfum við verið að máta okkur inn í verkefnið, þróa leiðir til að halda utan um innleiðinguna og vinna markvisst að því að máta okkur inn í hæglætishreyfinguna Cittaslow – sem stendur þó alls ekki fyrir að gera allt hægt.  Það er eitt af því sem við erum búin að komast að í vetur. 

Segja má að þrjú hugtök nái að langstærstum hluta utanum þessa hugmynd.  Orðin þrjú eru:  Sérstaða, fjölbreytni og virðing.  Og þessi þrjú hugtök eiga að vera rauði þráðurinn í öllu skólastarfinu, það er stóra markmiðið og ljóst er að það mun taka okkur nokkur ár að festa innleiðinguna í sessi.

Í vetur höfum við áfram unnið að því að flokka, huga að matarsóun og annað slíkt.  Við höfum breytt dagskipulagi í grunnskólanum, t.d settum við á sérstakan nestistíma að morgni til þess að nemendur gætu notið þess að borða nestið sitt í rólegheitunum.  Einnig færðum við hádegisverðinn fram um hálftíma til að koma til móts við svanga nemendur.  Að sama skapi var ákveðið að hafa útiveru í hádeginu sem varð til þess að unglingarnar okkar sátu saman allt hádegið og spjölluðu saman um heima og geima yfir matnum og yngri nemendur nutu þess að vera úti í leikjum.

Styrkirnir tveir sem við fengum voru hugsaðir til tveggja mismunandi verkefna, Sprotasjóðsstyrkurinn var hugsaður til að vinna að verkefninu inná við, fá sérfræðinga í heimsókn og til að greiða hluta kostnaðar við gerð heimildamyndar.  Erasmus+ styrkurinn var hugsaður til að koma á samskiptum við skóla á Ítalíu.  Nú ári síðar þá er ljóst að þessi markmið náðust bæði mjög vel.

Sex starfsmenn úr grunn- og leikskólanum fóru til Orvieto á Ítalíu í janúar 2017.  Þar var lagður grunnur að áframhaldandi samstarfi og verkefnið kortlagt.  Í maí 2017 fóru síðan 12 unglingar úr 8.-10. bekk í skólaheimsókn, ásamt þremur fylgdarmönnum.  Nemendur dvöldust í fimm daga í Orvieto við leik og störf og kynntust þar fullt af nýju fólki og ekki síst nýrri menningu.  Ferðalangarnir fengu heimboð til ítalskra fjölskyldna þar sem þeir snæddu ítalskan heimilismat og kynntust heimilishaldi þar.  Komu þeir heim með frábærar minningar og eru spenntir að launa þeim greiðann þegar nemendur frá Ítalíu koma að heimsækja okkur vorið 2018.

Hvað framhaldið varðar þá er gleðilegt að segja frá því að við sóttum aftur um í Sprotasjóðinn og fengum 1.6 milljónir í styrk fyrir næsta skólaár.  Erasmus+ styrkurinn var til tveggja ára þannig að verkefnið hefur samtals fengið um 8 milljónir.  Í september munu sex kennarar frá Orvieto heimsækja Djúpavog og verður gaman að geta sýnt þeim þorpið okkar, skólana og næsta nágrenni, auk þess sem við munum að sjálfsögðu halda áfram að þróa verkefnið áfram.

Við erum búin að komast að því að innleiðing á hugmyndafræði Cittaslow er langhlaup.  Við héldum fyrst að við gætum tikkað í box og sagt svo eftir tvö ár að við værum búin og gætum þá farið að snúa okkur að einhverju öðru.  Það er alls ekki þannig því við ætlum að verða Cittaslow, við ætlum að hlúa að sérstöðu okkar sem skóla og samfélags, við ætlum að fagna fjölbreytileikanum í öllum sínum myndum og við ætlum að bera virðingu fyrir sjálfum okkur og eins og okkur er frekast unnt.  Þannig aukum við lífsgæði okkar og annarra og þannig náum við hæglætinu sem felst í því að lifa og njóta.

Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir,
skólastjóri Djúpavogsskóla

Með þessari frétt er mynd af hugarkorti sem nemendur á Kríudeild í leikskólanum unnu með deildarstjóranum sínum í vetur.  Eins og þið sjáið eru þrír litir á kortinu.  Fyrsta skipti sem nemendur skrifuðu inná það er með rauðum lit.  Það sem er svart kemur næst og það skráðu nemendur eftir að hafa hitt Pál Líndal.  Þriðja skráningin er síðan með bláum lit  

 

 

 

 

 

 

 

 


smþmffl
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31